146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

3. mál
[17:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil halda hér stutta ræðu, bara til að undirstrika mikilvægi þessa máls. Nú er það ekki svo að ungmenni á Íslandi séu allt í einu í mikilli þörf fyrir sálgæslu og sálfræðiþjónustu því að þetta hefur auðvitað verið þekkt í mörg ár. Í þeim tveimur framhaldsskólum sem ég starfaði í, síðast fyrir 12 árum, þannig að það er langt síðan, var reynt að finna leiðir til að hjálpa ungmennunum til að komast til sálfræðings ef eitthvað bjátaði á, en það var oft erfitt að finna leiðir til þess. Fjárhagur skólans leyfði ekki mikla þjónustu eða að margir fengju hana. Stundum var eitthvert samstarf við Rauða krossinn, stundum við sálfræðiþjónustu úti í bæ o.s.frv., en allt fór þetta eftir því hvernig fjárhagur skólans var. Það var auðvitað algjörlega óásættanlegt. Þess vegna var þetta mál flutt hér fyrir ári, en 1. flutningsmaður var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og meðflutningsmenn voru úr þáverandi stjórnarandstöðu. Málið fékk ekki brautargengi þá, en vonandi gengur það núna.

Nú er staða ríkissjóðs mun betri en hún var þegar verið var, á þarsíðasta kjörtímabili, að reyna að finna leiðir til að auka þessa þjónustu og því hlýtur þetta að vera auðsótt mál. Það er talað um þetta í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þannig að ég vona að málið renni hratt í gegnum þingið og að allir þingmenn séu tilbúnir til að láta þetta gerast hratt og vel og að fjárveiting komi í fjármálaáætluninni sem kynnt verður 1. apríl. Ég skora á nefndarmenn, sem fá þetta mál í hendurnar, að láta það renna hratt í gegn svo að við getum komið þessu sem fyrst í gang.

Á þeim árum sem fólk er í framhaldsskóla er svo margt að gerast og oft gerðar miklar kröfur til ungmennanna sem þau eiga erfitt með að standa undir, sjálfsmynd er mismunandi sterk o.s.frv. Það er vissulega þörf á þessari þjónustu í framhaldsskólum og hefur verið lengi. Það er mikilvægt að hver einasti skóli geti veitt þessa þjónustu og að öllum nemendum, hvar sem þeir eru á landinu, standi þessi þjónusta til boða og án þess að þau þurfi að taka upp veskið. Það er auðvitað lykilatriði.

Það sama má segja um þjónustu hjúkrunarfræðinga. Það er alveg það sama sem hefur gerst hvað það varðar í gegnum árin. Skólar hafa verið í samstarfi við heilsugæslu á svæðinu. Það hafa verið viðtalstímar einu sinni í viku alla vega og eins fjölbreytilegt og framhaldsskólarnir eru margir. En það voru alltaf deilur um hver ætti að borga. Átti heilbrigðisþjónustan að borga þetta? Átti heilbrigðisstofnunin að kosta þjónustuna? Eða var það framhaldsskólinn? Svo þegar verulega þrengdi að okkur þá lagðist þessi þjónusta af í mörgum framhaldsskólum sem er mjög miður. Það þarf líka að huga að heilbrigðisþjónustu og aðgengi að hjúkrunarfræðingi í framhaldsskólum. Ég vona að það gerist í framhaldinu. Nú er staðan þannig að þeim ungmennum sem greinast með kynsjúkdóma er að fjölga. Það er mjög mikilvægt að fræðsla, forvarnir og aðgengi að hjúkrunarfræðingi í framhaldsskólum sé auðveldað.

Herra forseti. Málið er bara þannig vaxið að það eru allir sammála um það og við höfum efni á því. Við eigum að drífa þetta í gegn og sjá til þess að í fjármálaáætluninni, sem birt verður 1. apríl, verði gert ráð fyrir ókeypis sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum.