146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

stuðningur við ríkisstjórnina.

[13:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Rúmum þremur mánuðum eftir kosningar blasir við býsna merkileg og óvenjuleg mynd. Ef miðað er við könnun MMR frá því í gær hafa stjórnarflokkarnir misst um 30% fylgi og stjórnin nýtur aðeins stuðnings þriðjungs kjósenda 40 dögum eftir að hún tók við. Í síðustu Gallup-könnun er veruleikinn svo enn svartari. Aðeins fjórðungur landsmanna styður ríkisstjórnina, mest tekjuháir karlmenn. Í nýlegri könnun MMR er líka spurt hvort íslenskt samfélag sé að stefna í rétta átt. Þeir sem höfðu áhyggjur af spillingu í fjármálum og stjórnmálum, fátækt og félagslegum ójöfnuði, viðhaldi velferðar- og heilbrigðiskerfisins eru langlíklegastir til að svara því að Ísland sé á rangri braut.

Hæstv. forsætisráðherra getur því ekki afgreitt þessar áhyggjur meiri hluta Íslendinga sem hughrif, eins og hann gerði í stefnuræðu sinni fyrir skömmu. Ráðherra hefur margsinnis vísað því á bug að hann hafi leynt skýrslum til að hafa áhrif á úrslit kosninga og hann hefur sagt að ekkert efnislegt benti til þess að slíkt hefði gerst. Af hverju nefni ég skýrslurnar í þessu samhengi? Jú, vegna þess að hér lýsir meiri hluti þjóðarinnar verulega þungum áhyggjum einmitt af þeim þáttum sem voru í skýrslunni: Hvernig öflum við tekna og hvernig skiptum við gæðunum?

Önnur skýrslan sýndi hvernig efnaðir Íslendingar komu peningum í öruggt skjól og losnuðu þannig við að leggja réttmæta peninga til samneyslunnar og hin sýndi hvernig best stæði hluti landsmanna naut svokallaðrar leiðréttingar í ríkari mæli en aðrir. Sem sagt: Skýrslurnar tvær snerust um spillingu, misskiptingu og félagslegan ójöfnuð.

Þess vegna hlýt ég að spyrja: Deilir hæstv. forsætisráðherra áhyggjum meiri hluta þjóðarinnar af þessum þáttum og ef svo er hvernig hyggst hann bregðast við? Ef ekki, er hann þá enn þeirrar skoðunar að upplifun fólks byggi á hughrifum eða að áhyggjur snúist um að einhver hluti þjóðarinnar sé haldinn einhverri geðveiki, eins og hann komst svo smekklega að orði í Kryddsíldinni?