146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

kynjahalli í dómskerfinu.

[13:50]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera öllum mönnum ljóst að við skipan dómara í landinu við hvaða dómstól það svo sem verður, þau þrjú dómstig sem verða eftir næstu áramót, þá skiptir öllu máli að þangað veljist hæfir einstaklingar. Ég hef í þessari umræðu eingöngu vísað til þess að til staðar er nefnd sem falið er að meta hæfni umsækjenda um dómarastöður. Þeirri nefnd er uppálagt að líta til hæfni umsækjenda. Þá er þar verið að líta til fræðilegs bakgrunns í víðu tilliti. Ég hef nefnt og tekið undir það sjónarmið sem liggur að baki löggjöf um hæfnisnefnd, að þar sé hæfasti einstaklingurinn valinn á hverjum tíma. Ég fæ ekki séð hvernig hægt er að víkja því sjónarmiði til hliðar fyrir það sjónarmið að fjölga tilteknum einstaklingum í réttinn á grundvelli einhverra sjónarmiða, eins og t.d. kynjasjónarmiðs. Ég spyr þá bara á móti: Hvaða sjónarmið vilja menn leggja til grundvallar við skipan dómara? Ég fæ ekki betur séð, og það er sannfæring mín fyrir því, en að réttarörygginu sé best borgið, þar sé helst staðinn vörður um réttaröryggið, með því að líta til hæfni. Ég hef líka sagt að ég hef engar áhyggjur af því eins og staðan er orðin í dag að á meðal hæfustu umsækjenda á hverjum tíma séu ekki konur jafnt sem karlar.