146. löggjafarþing — 29. fundur,  21. feb. 2017.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 39/2016 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn.

130. mál
[15:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka ráðherra snaggaralega framsögu hans og jafnframt óska ég honum til hamingju með að ná að fela ágætistillögu í mjög leiðinlegum og ógagnsæjum titli. Við erum að tala um eitthvað sem er kallað ófjárhagslegar upplýsingar, sem mætti jafnvel hengja orðu á einhvern í ráðuneytinu fyrir að hafa fundið hugtakið yfir því að þetta er ágætismál. Það að fyrirtæki skili ákveðnu bókhaldi um upplýsingar sem tengjast þróun varðandi umhverfi, félags- og starfsmannamál, virðingu fyrir mannréttindum og varnir gegn spillingu er eitthvað sem er eiginlega dálítið stórt mál og ekkert sem þarf að fela í orðagjálfri þýðingarmiðstöðvarinnar.

Mig langar hins vegar að spyrja ráðherrann. Nú gerir tilskipunin sem hér er verið að innleiða ráð fyrir að þessar reglur nái til félaga sem eru með yfir 500 starfsmenn starfandi á ársgrundvelli. Miðað við það sem stendur i tímaritinu Frjálsri verslun sem kom út á síðasta ári voru fyrirtæki af þeirri stærðargráðu ekki nema 26 hér á landi. Íslenskur atvinnumarkaður er frábrugðinn því sem gerist víða í Evrópu.

Mig langar þess vegna að spyrja ráðherrann hvort komið hafi til álita í ráðuneytinu að víkka reglurnar aðeins miðað við það sem var lagt upp með í Brussel og láta þær ná yfir smærri fyrirtæki hér á landi en þau sem hafa 500 manns starfandi.