146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

þátttaka stjórnarflokka í sérstökum umræðum.

[15:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Ég hef svo sem ekki sömu mælistikur og hv. þm. Birgir Ármannsson á það hvað séu mestu fýlubombur sem fallið hafa hér í þingsal. Mig langar samt, af því að þó að ég hafi ekki verið lengi á þingi hef ég verið nokkuð lengi á netinu og kann að gúgla smá, að lesa upp úr ræðu sem var haldin 15. apríl 2009, með leyfi forseta:

„Ég geri ráð fyrir því að það eigi sér einhverjar skýringar að hér í húsi eru ekki fulltrúar tveggja flokka, Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins sem eru þó meðal þeirra flokka sem standa að því frumvarpi sem nú er rætt.“

Hér mælir að sjálfsögðu hv. þm. Birgir Ármannsson, þáverandi stjórnarandstöðuþingmaður. Nú vantar mig málbandið en þetta þykir mér vera fýlubomba af svipaðri stærðargráðu og sú sem hér er að falla. [Hlátur í þingsal.]