146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:27]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Það eru fjölmörg atriði sem hér koma til skoðunar og varða marga þætti. Rétt er að leggja áherslu á að þessi mál eru fyrst og fremst á ábyrgð sveitarfélaganna sem í hlut eiga. Samgöngumálin varða skipulagsmál, íbúaþróun, byggðaþróun og samtengingu sveitarfélaga.

Sveitarfélögin hafa með sér samstarf undir hatti Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og vinna nú að verkefni sem er svokölluð borgarlína sem verður burðarás í nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Borgarlínan er nýtt kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og henni er ætlað að verða samgöngu- og þróunarás sem tengir sveitarfélögin saman. Hún verður þannig nýr valkostur í samgöngum og mun gegna lykilhlutverki við að breyta ferðavenjum. Hún verður grundvöllur eftirsóknarverðra uppbyggingarsvæða fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu. Hún er samgöngumiðuð uppbygging sem beint er á kjarna víðs vegar um höfuðborgarsvæðið sem mun styrkja öll hverfi. Með þessu móti mun álag á miðborgina minnka eftir því sem spennandi svæðum fjölgar sem eru tengd hágæðaalmenningssamgöngum.

Ef vel tekst til getur borgarlínan skilað góðum árangri með því t.d. að draga verulega úr bílaumferð og þar með álagi á vega- og gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins. Hún getur skilað sér með verulegum samdrætti í bílaumferð ásamt aukinni rafbílanotkun sem má ætla að stuðli að umtalsverðum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og þar með styrkja framlag þessa svæðis til þess að draga úr loftslagsvá og þar með auðvelda Íslandi að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar í þeim efnum. Þá ætti ferðatími innan svæðisins að styttast (Forseti hringir.) og þá má ætla að bætt samgöngukerfi af þessu tagi stuðli að göngum og hjólreiðum sem er mikilvægt framlag til bættrar lýðheilsu.

Mitt mat er það að ríkisvaldið eigi, þegar samgöngumál höfuðborgarsvæðisins eiga í hlut, að hlusta grannt eftir sjónarmiðum samtaka sveitarfélaga á svæðinu. (Forseti hringir.) Skipulagsvaldið er í þeirra höndum og því mikilvægt að ríkið hlutist ekki til um það heldur komi til móts við sjónarmið höfuðborgarsvæðisins. Þess vegna hvet ég þing og ríkisstjórn til þess að styðja við áform um borgarlínu með ráðum og dáð.