146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:46]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hér er komið inn á mörg mjög áhugaverð mál og sérstaklega þegar kemur að þéttingu byggðar. Þá langar mig til að nefna að það eru í raun þrjár stefnur sem spila vel saman og hafa verið mér hugleiknar hvað varðar sveitarfélögin, en það eru húsnæðisstefna, samgöngustefna og lýðheilsustefna. Ég ætla aðeins að fá að útskýra það.

Húsnæðisstefna — hér á höfuðborgarsvæðinu höfum við lagt áherslu á að byggja inn á við, fara ekki að brjóta meira land undir. Við þurfum að þjónusta þau þéttingarhverfi vel og mun betur en við gerum með almenningssamgöngum. Við þurfum að auka tíðni almenningssamgangna á þéttingarsvæðum og bæta farveg fyrir hjólreiðar og efla þær. Þannig þjónustum við þéttingarsvæðin. Í skipulagi gerum við kröfur um færri bílastæði og þess vegna er þetta mikilvægt. Til að stuðla að og halda við þessa húsnæðisstefnu þurfum við að búa til samgöngustefnu. Síðan hefur lýðheilsan áhrif á það.

Þetta þrennt spilar vel saman. Ég hef kallað eftir því og tel mikilvægt að unnin verði sameiginleg húsnæðisstefna fyrir höfuðborgarsvæðið og samgöngustefna; öll sveitarfélögin eru, held ég, komin vel á veg með lýðheilsustefnu og einnig hafði síðasta ríkisstjórn, að mér skilst, búið til lýðheilsustefnu á landsvísu þannig að þess er ekki þörf. Ég tel hins vegar mikilvægt, bæði hvað varðar húsnæðisstefnu og samgöngustefnu, að það verði unnið sameiginlega.