146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[11:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ráðherra hefur í raun þetta val samkvæmt þeim lögum sem við ræðum núna. Þau sjónarmið sem við tökumst á um hér eru hvort við eigum ekki að leiðbeina ráðherra í vali sínu að hann skuli fylgja jafnréttislögum. Því að lögin gera ráð fyrir því að, með leyfi forseta:

„Frá vali valnefndarinnar megi víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um að skipa í embætti annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum“ 21. gr. laga um dómstóla.

Í því tilfelli getur ráðherra litið til kynjasjónarmiða. En ég fæ ekki séð að þessi lög skyldi ráðherra á nokkurn hátt til þess að fylgja því. Þó að hv. þingmanni finnist það skýrt að ráðherra beri að fylgja þessum lögum þá sé ég ekki hvaða sjónarmið voru gegn því að taka það bara fram fyrst það er skýrt að ráðherra beri að fylgja jafnréttislögum við skipan í þennan nýja dómstól sem skipaður verður 15 dómurum. Fyrst það er svona skýrt, hvers vegna er hv. þingmaður á móti því að setja það einfaldlega inn í lagatextann svo það velkist enginn í vafa um það og svo nefndin geti öll gengið sátt frá borði?