146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[11:50]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér heyrðist hv. þingmaður segja í framsögu sinni áðan að hann mundi ekki líta á þetta sem meiri háttar breytingu, en þegar við erum að gera grundvallarbreytingu sem snýst um að breyta því svigrúmi sem ráðherrann hefur þá tel ég það vera grundvallarbreytingu. Einhverra hluta vegna samþykkti Alþingi í allri sátt að hafa þetta svigrúm inni fyrir ráðherrann þegar lögin voru samþykkt á síðasta kjörtímabili. Ef við ætlum svo að fara að þrengja það eingöngu út frá jafnréttisvinkli en ekki öðrum fjölbreytileika eða lagaþekkingu þá finnst mér það svolítið stór breyting.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé eðlilegt að láta reyna á það að hæfnisnefndin er skipuð þremur konum og tveimur körlum. Alþingi kom sér í fullkominni sátt saman um að breyta því hvernig sú skipun færi fram, að alltaf ætti að tilnefna bæði karl og konu. Það hefur gert að verkum að nú eru hlutföllin þar jafnari. Ég treysti því fólki til að skila góðum lista úr þeim umsóknum sem berast og ég treysti því að umsóknirnar verði líka góðar. Með þeirri þróun að hlutfall kynjanna sé jafnt í héraðsdómi hlýtur þetta að vera stighækkandi þróun.

Mig langar líka að spyrja í lokin hvað minni hlutinn meinar með því að eðlilegt hljóti að teljast að dómstólar starfi samkvæmt jafnréttislögum, að full ástæða sé til að hnykkja á þeirri afstöðu í lagatextanum sjálfum. Hvaða fullu ástæða er verið að vísa hér í?