146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

æskulýðsmál og samfélagsþátttaka ungs fólks á Íslandi.

[12:52]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. framsögumanni þessa sérstöku umræðu, fyrir að vekja máls á þessu efni, og hæstv. menntamálaráðherra fyrir að taka þátt í henni með okkur. Mig langaði að ræða aðeins um vinkilinn réttarvitund ungmenna þegar kemur að þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi, og ekki einungis réttarvitund heldur líka skilning þeirra á þjóðfélaginu sem þau eru á leiðinni út í, vegna þess að ef maður skilur ekki hvað allir stjórnmálamennirnir eru alltaf að tala um er ekkert sérstaklega líklegt að maður hafi einhvern áhuga á því sem þeir eru yfir höfuð að tala um. Ég veit það af eigin reynslu, frú forseti, að þegar ég kom úr menntaskóla hafði ég ekki hlotið viðeigandi fræðslu um réttindi mín sem leigjanda t.d. og hvernig leigulög virka mér í hag eða óhag á hinum almenna leigumarkaði. Ég veit að þetta er raunin hjá fjöldamörgum vinum mínum og kunningjum sem þekkja ekki enn þá rétt sinn almennilega sem leigjendur. Það er mjög mikilvægt, eins og við vitum, fyrir ungt fólk að vita að það má t.d. ekki henda því út með tveggja vikna fyrirvara, eins og sumir láta sér detta í hug að gera.

Ég vissi heldur ekki almennilega deili á stjórnarskrá Íslands eða á stjórnskipun landsins eða hvernig hún virkaði yfir höfuð, hvernig kosið er til Alþingis, hver munurinn er á alþingiskosningum og þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta eru allt atriði sem menntun okkar hvorki skýrir né tryggir nógu vel. Mér höfðu ekki verið kynnt réttindi mín gagnvart lögreglu, mér höfðu ekki verið kynnt réttindi mín gagnvart stjórnsýslunni eða útskýrðir þættir eins og hagkerfið, verðbólga, fasteignir og lán. Æskulýðsfélög geta hjálpað til með þetta en menntakerfið verður líka að tryggja að ungmenni hafi betri réttarvitund, viti betur út í hvaða samfélag þau eru að fara til þess að geta tekið þátt í því, til þess að það megi einmitt hvetja þau til að taka þátt með beinum hætti, með kosningum, með þátttöku í stjórnmálastarfi.

Ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra að því hvort hann hyggist ekki beita sér fyrir því að efla einnig réttarvitund ungmenna.