146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

sala á Arion banka.

[15:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Í fyrsta lagi um efnahagsleg áhrif, þá er það samkvæmt samkomulagi sem aðilarnir eru að kaupa. Þeir eru ekki að kaupa af ríkinu heldur eru þeir að kaupa af slitabúinu. Þetta er gert í samræmi við það samkomulag. Ég get hins vegar svarað til um pólitísk áhrif. Ég tel persónulega að það sé ekki hentugt fyrir Ísland að eiga alla viðskiptabankana. Ég held að ærið nóg sé að eiga tvo þeirra þótt tímabundið sé. Ég held að það væri ekki æskilegt fyrir Ísland ef allir bankarnir væru í ríkiseigu.

Varðandi endurskipulagninguna þá er það sams konar svar sem ég get gefið, að það er ekki ríkisins að endurskipuleggja Arion banka vegna þess að ríkið á þar bara 13% hlut, en ég mun koma nánar inn á endurskipulagningu bankakerfisins alls í sérstakri umræðu sem verður hér á eftir. Ég tel í sjálfu sér að þessi sala sé í samræmi við það sem menn gátu vænst þegar samkomulagið var gert. Ég á ekki von á því að það hafi mikil áhrif á framtíðina í bankakerfinu.