146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[20:13]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég tel að það sé mjög brýnt að fram komi að ekki er verið að krefja fólk um endurgreiðslur þrátt fyrir þetta fúsk. Mér finnst mjög mikilvægt að halda til haga að út frá þeim fyrirspurnum sem hv. þm. Halldóra Mogensen beindi til hæstv. félagsmálaráðherra í dag kom mjög skýrt fram að andi laganna ætti að ráða.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann varðandi það þegar kemur að ýmsum vandræðum sem fólk lendir t.d. í hjá Tryggingastofnun þegar það sækir rétt sinn og fellur á milli skips og bryggju og tölvan segir alltaf nei, eins og nýlegt dæmi er um þegar foreldrar tvíbura sem báðir þurfa að sitja í hjólastól, máttu ekki kaupa einn stóran bíl heldur urðu að kaupa tvo bíla: Er ekki tilefni til þess að við nýtum þá tækifærið núna og skýrum það mjög vel hér á þingi að andi laganna er ekki eingöngu eitthvert fúsk hjá þinginu. Maður hefur fullan skilning á því að hægt er að gera mistök en við eigum alltaf að muna að hvert einasta orð í lögum getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir fjölda landsmanna. Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður sé ekki sammála því.