146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[21:02]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P):

Virðulegi forseti. 5 milljarðar út af einhverri lagatæknilegri villu, einhverri fljótfærni, prentvillu, innsláttarvillu, hvað þið kallið það. Þetta er rosalega vandræðalegt klúður, verra en Óskarinn. Ég hef fulla samúð með því að hv. þingmenn meiri hlutans vilji laga þetta í flýti og helst í hálfgerðri kyrrþey án þess að of mikið fari fyrir því. Eins og sagt hefur verið var það vilji löggjafans að greiða ekki þessa 5 milljarða, en við viljum helst búa í réttarríki, eins og ég skil það, þar sem farið er að lögum. Þótt ég sé ekki lögfræðingur veit ég að bókstafur laganna er ofar vilja löggjafans, þó svo að þetta sé vissulega lögskýringargagn þá er það bókstafurinn sem gildir. Það væri voða þægilegt að segja um mistökin: Já, já, við skulum bara redda þessu eftir á — en mér finnst okkur, Alþingi, ekki stætt á því að ætla að vanvirða lögin sem við setjum sjálf, hætta við að fylgja þeim og vona að það verði ekkert vesen, enginn verði með vesen og svo treystum við á samfélagsumræðuna hvað varðar hvort það hafi verið væntingar eða ekki. Ég held að við getum ekki á Alþingi, ekki frekar en aðrir, ákveðið að þessi lög henti okkur ekki þannig að við ætlum ekki að fylgja þeim og svo leiðréttum við það aftur í tímann. Það er rosalega mikil hentisemi.

Fólk hefur talað um gráa svæðið hér. Ef það kemur upp í framtíðinni að svipuð mistök verða gerð og það er ekki alveg jafn skýrt í lögskýringargögnum að það hafi orðið mistök, verður þá aftur hægt að hafa þetta afturvirkt? Svo gerist það kannski seinna að það er ekki alveg skýrt að gerð hafi verið mistök en fólk telur að mistök hafi orðið og þá breytum við því. Síðan er það jafnvel þannig að Alþingi ætlaði að setja lögin svona en það fór ekki alveg eins og við vildum þannig að þá hljótum við að geta breytt afturvirkt líka, er það ekki? Hvar liggja mörkin, ef Alþingi getur ákveðið breyta eigin lögum afturvirkt? Þetta mál er sérstaklega sorglegt af því að það kemur við kjör þeirra viðkvæmustu í samfélaginu. Mér finnst okkur ekki stætt á því að breyta þessu til baka, afturvirkt. Þetta er prinsippmál, sama hversu pragmatískt eða þægilegt það er þá getum við ekki leyft okkur það. Ef til þess kemur getum við sett fjáraukalög og tekið þá byrði af okkur sem skapaðist vegna eigin mistaka eða mistaka tiltekinna aðila. Ég skil að þetta er mikið klúður en við verðum að fara eftir lögum á Alþingi Íslendinga.