146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera tvennt að umtalsefni í dag, annars vegar nýútkomna skýrslu Ríkisendurskoðunar um kostnað og skilvirkni kennaramenntunar í landinu. Mikill kennaraskortur er fyrirsjáanlegur á landinu. Fréttin kom ekki svo á óvart og ég hef oft rætt það, ekki síst í aðdraganda ríkisstjórnarmyndunar. Með leyfi forseta vil ég vitna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar þar sem segir að kennaramenntun verði efld til að bregðast við fækkun kennara og minnkandi aðsókn í kennaranám. Þar segir líka að öll skólastig skuli verða efld.

Ég beini því orðum mínum til hæstv. menntamálaráðherra og minni hann á að nú þurfum við að mæta neyðarkalli með skilvirkni. Til þess erum við í Bjartri framtíð tilbúin.

Jóhanna Einarsdóttir, sviðsstjóri menntavísindasviðs Háskóla Íslands, sagði í viðtali í gær að þetta væri samfélagslegur vandi sem þyrfti að bregðast við. Við sem starfað höfum á leikskólastiginu höfum lengi lýst töluverðum áhyggjum af því að aðeins þriðjungur leikskólakennara sé menntaður sem slíkur þrátt fyrir að lög kveði á um að að lágmarki þurfi tveir þriðju stöðugilda að teljast til leikskólakennara. Ég sjálf starfaði mörg ár í leikskóla þar sem af 11 stöðugildum voru þrír faglærðir. Af þeim voru tveir stjórnendur skólans, sem sagt aðeins einn starfandi kennari á gólfinu til að sinna menntun og uppeldi barnanna.

Þar sem þetta er samfélagslegur vandi, og ég tel afar mikilvægt að tryggja sess og virðingu kennarastarfsins, er þetta á ábyrgð okkar allra, sérstaklega þeirra sem fara með ábyrgð skólakerfisins á öllum skólastigum og í öllum skólakerfum.

Hin fréttin sem stakk mig var að Hjallastefnan er að byrja með þvottaþjónustu. Fyrir mér er það á skjön við aðgerðir til að efla virðingu samfélagsins fyrir menntastofnunum og þeim dýrmætu kennurum sem þar starfa. Það að stofnun sem ber skylda til að sinna menntun og uppeldi skuli taka að sér heimilisstörf er ekki leið að mínu mati til að bæta virðingu fyrir menntun eða kennarastarfi, en kannski fær skólinn fleiri viðskiptavini.


Efnisorð er vísa í ræðuna