146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:36]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Enn ræðum við um svokallað brennivínsfrumvarp sem er orðin þekkt stærð í umræðunni og reglulegur gestur hér inni og í samfélagsumræðunni. Ítrekað leggja Sjálfstæðismenn fram þetta merkilega forgangsmál sitt. Margir undra sig á þrautseigjunni og þráhyggjunni við að berja þetta hér í gegn en kannski er það ekki svo skrýtið ef horft er til stjórnarsáttmála starfandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þar er hvorki stafkrókur um forvarnir né æskulýðsmál, mál sem við Framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á í heilbrigðisstefnu sem við höfum lagt hér fram. Þegar við ræðum um áfengi og þetta mál, sem er forgangsmál Sjálfstæðismanna, getum við aldrei sagt að varan sem við fjöllum um sé lík annarri vöru. Við getum ekki talað um áfengi eins og hverja aðra neysluvöru. Nái þetta frumvarp fram að ganga eru menn að setja fósturskaðleg efni í meiri sölu, eina vímuefnið sem sannarlega veldur fósturskaða ef drukkið er á meðgöngu.

Þetta er ekki eitthvað sem mér datt í hug heldur niðurstöður vísindalegra rannsókna. Áfengi er áfengi, etanól, sama í hvaða þynningu það er selt eða drukkið; efnið er það sama og hefur sömu áhrif. Áfengi er ávanabindandi fíkniefni og vímuefni sem hefur umsvifalaust áhrif á miðtaugakerfið, þ.e. heilann. Áhrifin eru vel þekkt og slævandi á hverja heilastöðina á fætur annarri þar sem dómgreind og hömlur fara fyrst. Vel þekkt áhrif áfengis á öll önnur líffærakerfi líkamans og skaðsemi þess á heilsu manna eru ekki bundin við áfengissjúka. Auk þess eru ótalin margvísleg félagsleg áhrif áfengisneyslu.

Hér hefur náðst góður árangur í að minnka unglingadrykkju. Það er gott og vissulega eiga forvarnir þátt í því, en ein aðalaðferð forvarna er að minnka aðgengi. Það er þekkt og vitað enda sýndu þingmenn það í verki með því að setja lög um minnkað aðgengi að tóbaki á Íslandi í mörgum skrefum með hreint frábærum árangri. Það hefur sýnt sig að skert aðgengi á stóran þátt í að draga úr neyslu. Fræðimenn og sérfræðingar á sviði forvarna hafa sagt okkur að miðað við ýmsar rannsóknir og kannanir muni aukið aðgengi að áfengi auka neyslu. Um það verður varla deilt. Því til stuðnings má vísa í fjölmargar rannsóknir, bæði austan hafs og vestan.

Af því að einhverjir þingmenn hafa talað um kráarmenningu í Bretlandi og huggulegheitin í kringum hana langar mig til að vekja athygli á því sem kom fram í grein Róberts H. Haraldssonar, prófessors við Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu fyrir tæpum þremur árum, með leyfi forseta:

„Skoðum t.d. reynslu nágranna okkar, Breta, sem hafa svo sannarlega stigið skrefið inn í „nútímann“. Aðgengi almennings að ódýru áfengi hefur verið aukið jafnt og þétt á Bretlandseyjum og árið 2012 var fjöldi áfengisútsölustaða í Englandi og Wales kominn í 51.130 en 220.000 sé þeim stöðum bætt við sem hafa leyfi til að selja áfengi til neyslu á staðnum. Skyldi hafa komið í ljós þar, að ekkert var að óttast? Fátt er fjær sanni. Bretar tala nú fullum hálsi um áfengisfaraldur …“

Dæmi um þetta hafa sýnt sig í öðrum löndum. David Cameron lýsti því einnig yfir að tarnadrykkja Breta hefði ekki minnkað, meira aðgengi að áfengi ekki hafa sýnt sig í minnkun hennar. Tarnadrykkja er eitt alvarlegasta samfélagsböl sem Bretar hafa staðið frammi fyrir. Við þurfum því ekki annað en að líta til nágranna okkar.

Menn tala um afturhald og íhaldssemi að halda í það fyrirkomulag sem við höfum og að það sé gamaldags. Mér finnst ansi gott að vera gamaldags ef sú er raunin. Ýmsar þjóðir sem við höfum talið framsæknar og nútímalegar hafa hömlur á áfengissölu í sínum löndum. Má þar nefna að nokkur ríki í Bandaríkjunum, eins og Pennsylvaníu og flest fylki Kanada og sum Norðurlandanna, sem teljast nútímaleg ríki og eru mörgum ríkjum til fyrirmyndar, hafa hömlur á áfengisútsölu. Þjóðir eins og Svíar og Írar vilji snúa við og minnka aðgengi vegna reynslu sinnar. Þurfum við að finna alla pytti sem aðrir hafa farið í og dýfa okkur í þá? Það held ég ekki.

Við höfum fyrir okkur niðurstöður fjölda vísindalegra rannsókna, þekkingu og reynslu fagfólks sem varar ítrekað við því að aðgengi að áfengi sé aukið. Það er undarlegt að heyra fólk sem talar jafnvel í öðru orðinu um mikilvægi menntunar og gildi framfara í vísindalegu starfi og rannsóknum halda því fram í hinu orðinu að ekki sé ástæða til að taka mark á fræðimönnum og fólki með sérþekkingu á sviði lýðheilsu, áfengisvörnum og læknisfræði.

Hæstv. forseti. Það má hafa í huga að andstaða meðal þjóðarinnar hefur aukist verulega og samkvæmt nýjum könnunum er meiri hluti hennar á móti því að leyfa sölu léttvíns í matvöruverslunum og yfirgnæfandi meiri hluti er andvígur því að leyfa sölu á sterku áfengi í búðum. Þetta rímar við þau skilaboð sem við þingmenn höfum fengið og vitna orð margra þingmanna hér um það. Ég vil sérstaklega benda á að í kjördæmaviku í Norðausturkjördæmi, þar sem við þingmenn hittum alla skólameistara í kjördæminu, komu sterk skilaboð frá því fólki, sem varaði eindregið við því að auka framboð á áfengi. Ég vil taka mark á því fólki.

Mér finnst einn þáttur í þessu vega þungt. Við erum aðilar að Norðurlandasamstarfi. Þar kemur fram yfirlýst stefna eftir að velferðarnefnd Norðurlandaráðs fór í vandaða og umfangsmikla vinnu í þessum málaflokki þar sem skoðuð voru gögn frá vísinda- og rannsóknaraðilum sem best þekkja til og eru óháðir áfengisframleiðendum. Vinnan skilaði sér í nefndartillögu sem Norðurlandaráð samþykkti og við erum þar af leiðandi með í þeim pakka. Eins og fram hefur komið er áfram unnið með þetta mál og það verður tekið fyrir nú í vor.

Mér finnst of mörg rök hníga að því óbreytt ástand skili góðum árangri. Við erum á góðri leið og aðrar þjóðir hafa horft til okkar sem fyrirmyndar. Það hef ég heyrt á samtölum mínum við sérfræðinga á þessu sviði og fólk sem er leiðandi í forvarnamálum og vinnur við áfengisvarnir. Með óbreyttu fyrirkomulagi munu Íslendingar sem finnst gott að drekka áfengi gera það áfram eins og þeim hentar og þeirra nánustu eru ánægðir með. Þeir munu áfram njóta góðs aðgengis ágætra vínbúða og þjónustu sem hefur batnað mikið með árunum. Það að hafna þessu frumvarpi er ekki að tala gegn neyslu áfengra drykkja eða með bindindi. Þetta snýst um aðgengi. Þetta snýst um stefnu okkar í þessum málaflokki.