146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:53]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er reyndar ekki á þeirri skoðun að sagan sé einstefna að því leyti að ef við höfum tekið einhverja ákvörðun einhvern tímann um eina leið sé ekki hægt að snúa við, aldrei nokkurn tímann. Ég held að engum hefði dottið í hug t.d. árið 1870 að 50 árum síðar væri búið að banna áfengi víða í hinum vestræna heimi, eins og var gert. Það hefði örugglega þótt algerlega fáránlegt. Á sama hátt finnst mér skipta máli að menn lýsi því yfir hver afstaða þeirra er til þess að hugsanlega hverfa aftur til þess tíma. Ef rannsóknir bentu til þess að við gætum spornað við hinum og þessum sjúkdómum með því að hemja mjög áfengisneyslu, með því t.d. að banna, kannski ekki bjór en sterkara áfengi, myndum við þá stíga það skref?

Vegna orða hv. þingmanns um að það væri aðgengið sem skipti máli í þessu samhengi velti ég fyrir mér hvort hún sé þá tilbúin til að líta á þann þátt, líta á fjölda útsölustaða, líta á opnunartíma útsölustaða, staðsetningu þeirra í byggð og nálægð við aðra þjónustu, eða hvort hún sé sannfærð um að ríkiseinokunin sé það sem tryggi núverandi árangur, ef við getum svo að orði komist.