146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[21:59]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég byrjaði að segja hér áðan en kláraði ekki höfum við séð á undanförnum áratugum, frá því undir lok níunda áratugarins, að fjármálakerfið hefur stækkað mjög mikið sem hluti af hagkerfum Vesturlanda. Fjármálakerfin hafa orðið miklu umfangsmeiri en áður sem hluti af hagkerfinu. Það hefur fylgt þeirri þróun að fjárfestingarbankastarfsemin hefur orðið umfangsmeiri hluti af fjármálakerfinu en það sem við getum kallað þjónustu við raunhagkerfið, eða hvað við viljum kalla það, þ.e. þjónustu við annað atvinnulíf en fjármálakerfið sjálft og svo almenning.

Ég held því að við verðum að ræða þennan aðskilnað á fjárfestingarbankastarfseminni og viðskiptabankastarfseminni. Þetta er eitt af því sem margir sérfræðingar benda á; þeir eru ekki allir sammála, sem betur fer, og það er það sem við þurfum að kafa ofan í. Þetta skapar ónauðsynlega áhættu fyrir almenning og annað atvinnulíf, þetta umfang fjárfestingarbankastarfseminnar innan fjármálafyrirtækjanna. Það tengist því líka hversu umfangsmikil fjármálafyrirtækin sjálf eru orðin í sinni eigin hringiðu af hagkerfum.

Hv. þingmaður segir: Vill hv. þingmaður ekki frekar ræða það sem ég hef áhuga á en það sem hún hefur áhuga á? Ég skal ræða það sem hv. þingmaður hefur áhuga á en við skulum ræða þessa tillögu líka. Við skulum ræða hvort tveggja. Ég vitna í formann Sjálfstæðisflokksins sem sagði í umræddum þætti sem ég vitnaði til hér áðan — og er ég nú farin að vitna í formann Sjálfstæðisflokksins, öðruvísi mér áður brá: Við endurskoðun á reglukerfi fjármálakerfisins þarf að skoða tvennt. Þetta sem hv. þingmaður nefnir hér, að ekki séu í eigandahópi bankanna aðilar sem eru fyrirferðarmiklir í annarri starfsemi á íslenskum markaði, að þeir aðilar séu ekki stórir aðilar í eigandahópnum, og þar eru þeir félagar sammála. Og svo talaði formaður Sjálfstæðisflokksins einnig um reglur um starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka sem takmarki áhrif áhættusamrar starfsemi á áhættuminni starfsemi. Þar erum við sammála. (Gripið fram í.) Til í þá umræðu.