146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[23:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að við eigum að beita okkur fyrir lausnum. Ég sit í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem mun fá þessa þingsályktunartillögu til umfjöllunar. Ég vona svo sannarlega að okkur takist að ræða okkur niður á einhverjar lausnir. Ég treysti líka á að hæstv. ríkisstjórn komi með þær lausnir sem stefnt hefur verið að í ríkisstjórnarsamstarfinu. Ég tek undir það að það er mikilvægt að við á þinginu vinnum í samstarfi við hitt stjórnsýslustigið sem er sveitarstjórnarstigið og skipulagsmál heyra jú undir sveitarstjórnirnar. Þetta er mál sem hefur verið í ágreiningi og þarna takast á hagsmunir landsbyggðar og höfuðborgarinnar, en við hljótum samt að geta fundið lausnir á því máli.