146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

rafræn birting málaskráa og gagna ráðuneyta.

175. mál
[17:46]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta mál að sjálfsögðu heils hugar, enda er ég einn flutningsmanna þess og tel þetta í góðu samræmi við áherslur okkar Pírata og fleiri á gegnsærri stjórnsýslu og upplýsingaflæði. Ég tel líka að málið ætti að geta verið í mjög góðu samræmi við boðaða stefnu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikts Jóhannessonar, um að opna stjórnsýsluna upp á gátt, tryggja aukið gegnsæi og ráðast í það verk. Vonandi er þetta mál sem við getum náð þverpólitískri sátt um og við fjármálaráðherra.

Mig langar einnig til að minnast á það í samhengi við það sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir sagði, að þetta gæti auðveldað okkur almenningi og fjölmiðlum að vera upplýstari um gang og stöðu mála innan ráðuneyta þannig að ekki sé upp á geðþótta ráðherra eða ráðuneytisstjóra komið að ákveða hvenær almenningur og fjölmiðlar eiga rétt á að vera upplýstir um mál og hvenær ekki, hvort það verði hjálplegt umræðunni eða ekki. Vegna þess að við höfum séð það, eins og hv. þingmaður kom inn á, að fordæmi hafa myndast fyrir því að ráðherrar taki ákvarðanir um hvenær heppilegt sé að birta skýrslur, sérstaklega hvort heppilegt sé að gera það í aðdraganda kosninga. Með leyfi forseta, ætla ég að vitna í hæstv. forsætisráðherra, Bjarna Benediktsson, frá 6. febrúar 2017 í þessum ræðustól þar sem hann segir:

„Hér er spurt um ástæður þess að annars vegar aflandsskýrslan kom ekki til þingsins og ég hef margoft svarað því, það var vegna kosninganna …“

Hæstv. forsætisráðherra tók sem sagt fram að skýrslan hefði ekki komið fram fyrr vegna kosninganna. Ráðherra tók ákvörðun um að birta ekki skýrslu sem var tilbúin innan ráðuneytis, meðvitaða ákvörðun, vegna þess að það voru kosningar í nánd.

Nú er einnig skjalfest það viðhorf hæstv. forsætisráðherra að ef ráðherra tekur slíka ákvörðun sé það eðlilegt svo lengi sem ráðherra getur staðið af sér vantraust á þingi, það sé eini mælikvarðinn, að standa af sér vantraust á þingi, þá hafi ráðherra ekkert rangt gert. Eða eins og hæstv. forsætisráðherra sagði í þingræðu 21. febrúar, með leyfi forseta:

„Hér hafa menn komið upp og sagt, eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, að þeir telji að hér hafi eitthvað refsivert gerst. Og fleiri en einn þingmaður hafa komið hér upp og sagt að ráðherrann hafi misbeitt valdi sínu, hann sé búinn að brjóta lög. Þessir hv. þingmenn þurfa, held ég, aðeins að kafa dýpra og kynna sér þau úrræði sem eru til staðar. Menn hrópa hér: Vantraust, vantraust. Menn verða að fylgja þeim orðum eftir með athöfnum og koma með vantraustsyfirlýsingu.“

Sem sé, þráspurður um hvort ráðherra hafi gerst brotlegur við siðareglur ráðherra, almennt brotlegur við sína pólitísku ábyrgð, þá var svar hæstv. forsætisráðherra það að ef menn telji það, þá verði þeir að leggja fram vantrauststillögu. Eina úrræði minni hlutans eða almennings til að ráðherrar sæti einhvers konar pólitískri ábyrgð fyrir gjörðir sínar er að hafa meiri hluta á þingi fyrir vantrausti.

Við höfum það því skjalfest að viðhorf ráðamanna til þeirra upplýsinga sem þeir liggja á sem æðstu ráðamenn, æðstu yfirmenn stjórnsýslunnar, sé það að þeim sé í sjálfsvald sett hvenær upplýsingarnar eru birtar og hvenær ekki. Þetta er að sjálfsögðu hluti af mjög óheilbrigðu viðhorfi til pólitískrar ábyrgðar sem er mögulega of algengt, allt of algengt, í stjórnmálum. Þetta er líka eitthvað sem mætti vonandi kippa í liðinn með málum eins og þessum, að málaskrár og staða mála ráðuneyta sé opin almenningi og fjölmiðlum óháð pólitísku geðþóttavaldi ráðherra og hvort þeim þyki eðlilegt og heppilegt að birta gögn fyrir kosningar eða ekki.