146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

76. mál
[18:31]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég er einn meðflutningsmanna þessarar þingsályktunartillögu og vil þakka flutningsmanni tillögunnar, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, kærlega fyrir frumkvæðið. Hv. þingmönnum sem komið hafa hér á undan mér hefur verið tíðrætt um ólöglegar landtökubyggðir. Langaði mig því að fara í smá útskýringu á því af hverju þessar landtökubyggðir teljast yfir höfuð ólöglegar og hvað það er sem alþjóðasamfélagið og sú sem hér stendur hefur svo mikið á móti landnemabyggðunum eða landtökubyggðunum, ef svo mætti að orði komast.

Ísrael ber að fylgja Genfarsáttmálanum sem eru fjórir alþjóðasamningar. Innan þeirra kemur m.a. fram að hernemi ríki annað ríki megi það ekki flytja fólk sinnar eigin þjóðar eða ríkis yfir á hið hernumda svæði til þess að búa þar. Það er aðeins eitt af fjölmörgum ákvæðum Genfarsáttmálans sem Ísraelsríki brýtur á degi hverjum, misalvarlega þó, en á degi hverjum brýtur það alla vega einhvern hluta ákvæðanna gagnvart þeim sem í Palestínu búa.

Landnemabyggðirnar fela þannig í sér brot af þeirri grundvallarreglu að þótt eitthverju ríki hafi tekist að hernema annað ríki megi það ekki innlima það í sitt eigið ríki. Að sjálfsögðu er álitið sem svo að ef þetta eina ríki flytur alla sína íbúa yfir í annað ríki sé verið að hernema það.

Á hernumdum svæðum Palestínu búa tvær þjóðir. Þar búa landnemar og þeim ber að fylgja ísraelskum lögum. Þar búa Palestínumenn og þeir búa við herræði, herræði sem er einnig í beinni andstöðu við Genfarsáttmálann að því leytinu til að það ríki sem hernemur annað ríki má einungis setja hertilskipanir eins og eru notaðar í lagakerfinu sem gildir einungis um Palestínumenn. Það má einungis setja slíkar tilskipanir til þess að tryggja öryggi hernámsins. Þetta er allt afskaplega kaldhæðnislegt, virðulegi forseti. Árásarstríð eru bönnuð í heiminum í dag. Hins vegar höfum við svokölluð mannúðarlög til þess að setja okkur reglur um það hvernig við getum komið ógeðslega fram við fólk í stríði með ágætlega siðmenntuðum hætti, skulum við segja. Meðal þeirra eru þær reglur að ekki megi setja nein önnur lög en þau sem giltu í ríkinu fyrir hernámið nema til þess að tryggja það að hernámi, sem er í raun og veru ekki löglegt samkvæmt almennum reglum, verði samt sem áður viðhaldið. Einu lögin sem hið hernemandi ríki má setja eru til þess að vernda öryggi hernámsins.

Ísraelsríki hefur að sjálfsögðu farið langt umfram þá heimild sína á öllum sviðum þegar kemur að hinum hernumdu svæðum Palestínu og setur reglur í raun um allt daglegt líf Palestínubúa með ófyrirsjáanlegum hertilskipunum sem Palestínubúum ber síðan að fylgja. Þeir hafa sjaldan fyrir því að þýða þessar tilskipanir sínar og rétta svo yfir Palestínubúum í herréttarhöldum ef þeir gerast brotlegir við lög sem þeir eru sjaldnast einu sinni látnir vita af. Þannig er ástandið á hernumdum svæðum Palestínu og hefur verið þannig svo áratugum skiptir.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði í pontu hér rétt áðan; þetta er ekki mjög róttæk tillaga. En þetta er það sem við getum að lágmarki gert til að við getum alla vega forðast vörur sem koma frá hernumdum svæðum Palestínu, stað þar sem börnum er refsað fyrir að vera börn á hernumdum svæðum Palestínu. Þau eru handtekin í skjóli nætur af sérsveitum sem ráðast inn á heimili þeirra og nema þau á brott og pynda þau svo vikum skiptir. Það er gert með kerfisbundnum hætti af ísraelska hernum. Þau eru neydd til þess að ljúga upp á vini sína, að þeir hafi líka verið að henda steinum í ísraelska herinn. Réttað er yfir þessum börnum með herréttarhöldum. Börnin eru síðan tekin frá fjölskyldu sinni og geymd í fangelsi í þrjá til sex mánuði. Sakfellingatíðnin í slíkum málum er gríðarlega há, eða um 96 eða 98% allra tilfella.

Ég ræði þetta sérstaklega af því að hið mikla misrétti sem á sér stað í Palestínu á hverjum degi er ein aðalástæðan fyrir því að ég valdi það nám ég fór í. Ég lagði stund á nám í mannúðarlögum og mannréttindalögum og skrifaði einmitt mastersritgerðina mína um stöðu barna á Vesturbakkanum sem eru handtekin og pynduð af ísraelska hernum á Vesturbakkanum. Þetta er bara eitt af örfáum dæmum af þeim voðaverkum og þeim stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyninu sem ísraelski herinn fremur á hernumdum svæðum Palestínu dagsdaglega. Er þá ekki farið að ræða hernámið sjálft og að það hafi viðgengist svona lengi og að alþjóðasamfélagið hafi aðhafst eins lítið og raun ber vitni.

Herra forseti. Þetta er mjög lítið skref en þó mjög mikilvægt til þess að auðvelda okkur alla vega að bera kennsl á þær vörur sem koma frá landstökubyggðum á hernumdum svæðum Palestínu, sem er ein versta birtingarmynd þessa óréttlætis en alls ekki sú eina, eins og ég hef farið ágætlega yfir. Vona ég að þetta verði bara eitt skref í átt að töluvert meira pönki þessa Alþingis gagnvart þessum viðurstyggilegu stríðsglæpum Ísraelsmanna. Ég vil þakka aftur fyrir að þessi þingsályktunartillaga sé lögð fram og vona að við getum öll sameinast um að gera fólki það kleift að styðja ekki ólöglegar landtökubyggðir Ísraelsmanna.