146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

kostnaður við breytingu á Stjórnarráðinu.

[10:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýr svör. Það er svo að í því kostnaðarmati sem nefndin fékk nú á dögunum er gert ráð fyrir sjö nýjum starfsmönnum, þar á meðal, ef virðulegur ráðherra vildi leggja við hlustir, tveimur nýjum sérfræðingum, sem ég hefði haldið að væru til staðar í núverandi innanríkisráðuneyti fyrir uppskiptingu. Ég heyri það á hæstv. ráðherra að hann telur rétt að endurskoða þessa ákvörðun, þ.e. endurskoða a.m.k. þetta fyrirkomulag. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji að í þeirri endurskoðun sé rétt að freista þess að fara þá leið að hæstv. dómsmálaráðherra sitji í óuppskiptu innanríkisráðuneyti, eins og við bentum á hér við 1. umr. málsins að kæmi vel til greina til að samnýta stoðkerfi Stjórnarráðsins og til að halda kostnaði í lágmarki, því að það getur ekki talist ábyrg nýting opinbers fjár að gera þetta með þessu móti. Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra og biðja hann að hnykkja á þeim orðum sínum hvort ekki sé rétt skilið hjá mér að málið eins og það er lagt fram miðað við þessar forsendur, þ.e. hálfan milljarð á kjörtímabilinu, sé stopp.