146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

samstarf við breytingar á lífeyrissjóðakerfinu.

[10:44]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Á þeim tímapunkti sem við erum í dag, þegar við lítum yfir farinn veg, getum við séð að saman höfum við náð ótrúlega miklum árangri til þess að bæta kjörin. Kaupmáttaraukningin sem hefur orðið nýverið er langt, langt umfram það sem við getum haft væntingar um að verði að jafnaði á ári hverju. Við þessar aðstæður er ég þeirrar skoðunar að við eigum að staldra við og viðurkenna þá staðreynd að við getum ekki haldið áfram að hafa væntingar um jafn mikla kaupmáttaraukningu heldur hljótum við að fara að beina sjónum okkar að því hvernig við getum varið þann mikla kaupmátt sem við höfum skapað á tiltölulega skömmum tíma og byggt undir meiri langtímavöxt kaupmáttar sem verður þá að vera hægari og í styttri skrefum inn í framtíðina. Áskoranirnar varðandi vinnumarkaðsmódelið, að reyna að færa okkur nær norræna módelinu, snúast m.a. um það að hóparnir vilja (Forseti hringir.) ekki láta fastsetja sig á þeim stað þar sem þeir eru í dag. Þeir snúast líka um það að kvennastörf eru almennt lægra launuð eins og við sjáum það í dag. Því er eðlilega velt upp sem spurningu hvort við séum sátt við það og svo margt annað. En þetta eru allt hlutir sem við getum rætt og fundið leiðir út úr.