146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Guðjóni Brjánssyni. Það er algjörlega óboðlegt þegar Alþingi hefur ekki aðeins samþykkt samgönguáætlun heldur hefur Alþingi náð samstöðu um það við gerð fjárlaga hvernig eigi að forgangsraða fjármunum til samgöngumála, að framkvæmdarvaldið telji sér heimilt að fara fram gegn vilja Alþingis með þessum hætti og hæstv. ráðherra í ríkisstjórn með minnsta mögulega meiri hluta hér á þingi, með minni hluta atkvæða á bak við sig, telji unnt að ganga með þessum hætti svo freklega fram hjá vilja Alþingis. Það er ekki að furða að fólk um land allt sé ósátt við þessa framgöngu. Við hljótum að gera þá kröfu að Alþingi taki þessi mál upp, að það sé vilji meiri hluta Alþingis sem ráði hér för og málin hljóti eðlilega umræðu á vettvangi Alþingis.