146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur fyrir frumkvæði hennar eða frumkvæði nefndarinnar að því að kalla ráðherrann á fund, en ég held að það dugi alls ekki. Það er náttúrlega takmarkaður fjöldi þingmanna sem situr í umhverfis- og samgöngunefnd. Samgönguáætlun er málefni sem varðar allt þingið. Ég óska því eftir að forseti beiti sér fyrir því að hér fari fram umræða, hvort sem það er sérstök umræða eða jafnvel að ráðherrann flytji okkur skýrslu um þær breytingar sem hann er að gera á vilja Alþingis þegar kemur að samgöngumálum.

Ég verð hins vegar að segja að það ætti nú ekki að koma okkur á óvart að það sé gert. Það lá fyrir að þessi ríkisstjórn var mynduð á grunni um skýran vilja, m.a. fjármálaráðherrans, um að hér ætti ekki að auka tekjur ríkissjóðs, hér ætti ekki að fara í nauðsynlega innviðauppbyggingu. Samgönguráðherrann hefur svo sem verið að leita eftir einhverjum tekjustofnum, en það virðist vera algjörlega (Forseti hringir.) gegn þeirri stefnu sem kynnt var í fjármálastefnunni sem liggur fyrir þinginu. Ég (Forseti hringir.) óska þess vegna eftir því að forseti beiti sér fyrir því að (Forseti hringir.) hér verði flutt skýrsla eða haldin sérstök umræða með ráðherra (Forseti hringir.) þannig að við heyrum það beint frá honum hvað hann er að gera.