146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.

183. mál
[16:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem átt hefur sér stað um málið hér og hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin þar sem hún skýrði málið fyrir okkur. Eins og fram kom í svörum hæstv. dómsmálaráðherra er verið að vinna að frumvörpum um breytingu á barnalögum, breytingum á hinum og þessum bandormum og að breytingum á reglugerð. Ég veit það eftir að ég fór að skoða þessi mál rækilega, sem ég hef gert undanfarnar vikur, að þau er mjög flókin. Það er svo margt þarna undir, eins og t.d. varðandi lögheimili, skattalöggjöf og ýmislegt annað sem býr að baki.

En ég fagna því að mikil vinna hafi farið fram á málinu og eftir að starfshópurinn skilaði af sér. Það er greinilega verið að vinna að því. Eins og hæstv. dómsmálaráðherra segir er búið að hafa samband við Barnavernd, Samband ísl. sveitarfélaga og Þjóðskrá. Þjóðskrá hefur verið að vinna að breytingum á tölvukerfum sínum og öðrum þáttum. Auðvitað veit ég að mikil vinna hefur farið fram en úti í samfélaginu eru hópar sem bíða eftir breytingum á þessu fyrirkomulagi, við verðum að muna það. Sveitarfélög eru í þeirri stöðu að þau þurfa að haga reglum sínum eftir því hvernig lög og reglur eru varðandi leikskólavist. Mörg dæmi eru um foreldra sem búa hvort í sínu sveitarfélaginu og deila forsjá með barni. Ég hvet hæstv. dómsmálaráðherra áfram til dáða í þessum efnum og vonandi að við náum að sjá frumvörp um málið sem allra fyrst hér innan hv. Alþingis.