146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

biðlistar eftir greiningu.

157. mál
[16:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Biðlistar eftir greiningu eru að lengjast, m.a. á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Dæmi eru um að nú þegar séu börn á leikskólaaldri á biðlista og biðtíminn þangað inn sé um tvö ár. Það þýðir að þessi börn verða komin í grunnskóla þegar greiningin er komin.

Snemmtæk íhlutun skiptir gríðarlega miklu máli. Snemmtæk íhlutun er það þegar reynt er á markvissan hátt að hafa áhrif á þroskaframvindu barna með frávik í þroska eins snemma og unnt er á lífsleiðinni. Tímabilið frá fæðingu til sex ára aldurs er það tímabil í lífi barna sem snemmtæk íhlutun er yfirleitt miðuð við og aðaláhersla er lögð á að íhlutunin hefjist sem fyrst eftir að frávik í þroska greinist. Það að börn þurfi að bíða í þetta langan tíma eftir greiningu getur orðið til þess að mikilvægur tími glatist. Þessu verðum við að bregðast við. Við eigum og þurfum að setja hagsmuni barnsins og fjölskyldu þess í forgang og hugsa hvað hægt sé að gera til að stytta þennan biðtíma.

Virðulegur forseti. Mig langar að velta því upp í þessari umræðu hvort ekki sé hægt að einfalda þetta ferli á einhvern hátt. Á síðustu árum hefur þekkingu starfsfólks í grunn- og leikskólum á ýmsum frávikum í þroska og námi barna fleygt fram. Jafnframt hefur þekking aukist á því hvernig mögulegt er að aðstoða nemendur við að sinna námi og starfi í skólunum. Samhliða hefur fagleg þekking og færni starfsfólks skólaþjónustunnar aukist sem og burðir til að greina frávik og veita starfsfólki ráðgjöf. Þetta ætti að tryggja að í minna mæli þurfi að leita út fyrir kerfið eftir þjónustu en samhliða þessu lengjast þrátt fyrir það biðlistar í sérhæfðustu læknisfræðilegu greiningarnar, svo sem hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og á aðra staði sem veita þessa þjónustu.

Við verðum að einfalda kerfið, stjórnmálamenn í samvinnu við fagfólk þurfa að taka höndum saman og fara yfir verkferla. Það þarf að veita þjónustuna fyrr og skoða þau viðmið sem sett eru um biðtíma, t.d. hjá embætti landlæknis þegar við erum að tala um biðtíma vegna líkamlegra sjúkdóma. Auðvitað ættu að vera sömu viðmið þegar kemur að biðtíma eftir hinni ýmsu greiningu þótt við vitum að biðtíminn sé mun lengri en viðmiðin gefa til kynna.

Það verður að efla þjónustu og draga úr óþægindum þess sem þarf að bíða. Ég ætla því að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra eftirfarandi spurninga:

Hyggst hæstv. ráðherra hefja átak í að stytta biðlista eftir greiningu, m.a. hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Þroska- og hegðunarstöð?

Ætlar ráðherra að bæta við fjármagni til að stytta þessa biðlista eða beita sér fyrir annars konar aðgerðum? Ef svo er, hvernig aðgerðum?