146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er ekkert nema eðlilegt og sjálfsagt að hv. þingmenn takist á um lítil mál og stór. En þegar búið er að ná samkomulagi um hvernig mál skuli afgreidd verður samkomulagið að standa. Þrátt fyrir skort á trausti almennings á Alþingi höfum við þingmenn getað treyst því að samkomulag sem gert er á milli flokka haldi. Við höfum getað treyst því hingað til að minnsta kosti.

Við þingmenn stóðum frammi fyrir nokkurri áskorun í þingstörfunum í desember sl. þegar enginn árangur hafði orðið í stjórnarmyndunarviðræðum þrátt fyrir viðræður og þreifingar af ýmsu tagi. Fyrir lá fjárlagafrumvarp starfsstjórnar fyrir árið 2017. Við vissum öll að það var mjög mikilvægt fyrir samfélagið að hafa í gildi fjárlög á nýju ári. En við vissum líka öll að það var langt á milli flokkanna og ólíklegt að saman næðist um forgangsröðun og áherslur. Eina leiðin til þess að ljúka verkefninu var að freista þess að ná samkomulagi á milli allra flokka um niðurstöðuna. Ef hver og einn flokkur hefði lagt fram sínar breytingartillögur hefði það getað gerst að ekkert hefði fengist samþykkt. Það hefði líka hugsanlega getað gerst að útgjaldaliðir hefðu verið samþykktir en tekjuliðir á móti ekki. Og þá hefði skapast andrúmsloft villta vestursins hér í þingsal. Það vildum við ekki.

Samkomulag var gert, byggt á ákveðnum forgangsverkefnum, einkum í heilbrigðismálum, samgöngumálum og menntamálum. Enginn fékk allt sitt en allir fengu eitthvað. Nú berast fréttir af því að hæstv. samgönguráðherra ætli að svíkja það samkomulag. Hæstv. ráðherra starfar í umboði Alþingis. Ef fréttirnar af svikunum eru réttar er traustið á hæstv. samgönguráðherra úti en líka traustið á þeim þingmönnum sem samþykkja svikin á samkomulaginu. Það er alvarleg staða. Við verðum að geta treyst því, alþingismenn, að samkomulag sem gert er í nafni allra flokka haldi. Annars er virðing Alþingis engin.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna