146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

staða fanga.

[14:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Við Píratar áttum í ágætum samskiptum við fyrrverandi ráðherra innanríkismála, Ólöfu Nordal, á síðasta kjörtímabili um stöðu fanga og úrbætur þar að lútandi. Það er einlæg von mín að núverandi ráðherra málaflokksins haldi áfram markvissum úrbótum þegar kemur að því að lagfæra mjög alvarlega annmarka á þessu kerfi okkar. Það er nauðsynlegt að við færum okkur úr hugarfari refsarans yfir í mannúðlegri úrræði fyrir fólk sem vill bæta sig og nýta frelsisviptinguna til að byrja upp á nýtt.

Því miður er það svo að fá úrræði eru í boði, bæði við afplánun en þó sér í lagi þegar afplánun lýkur og allt of algengt er að fólk endi lóðbeint í sama munstri eftir að það hefur lokið afplánun.

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, blaðamaður hjá Stundinni, gerði mjög ítarlega rannsókn á stöðu fanga nýverið og þar eru mjög mörg sláandi dæmi dregin upp um almennt úrræða- og stefnuleysi yfirvalda sem kalla á alvörulausnir og fjármagn inn í málaflokkinn. Töluvert var rætt um þessi mál hér í þingsal þegar ný heildarlög um refsistefnu voru afgreidd í fyrra, en það sem var mjög lýsandi fyrir stöðuna í þessum málaflokki er hve orðið betrun kom sjaldan fyrir í frumvarpinu og hve refsistefnan er enn inngróin í hugmyndir um afplánun og úrræði varðandi ábyrgð á refsiverðri háttsemi.

Forseti. Það vita allir sem fylgjast með þessum málaflokki að brýn þörf er á fleiri sálfræðingum sem sinna föngum. Núna eru aðeins tveir sálfræðingar sem eiga að sinna landinu öllu en ég hef fyrir því öruggar heimildir að fangar á Akureyri fái enga slíka þjónustu. Nú síðast í dag lést fangi vegna tilraunar til sjálfsvígs í fangelsinu á Akureyri. Ég vona með sanni að tilefni verði til að tryggja föngum sem þar eru áfallahjálp af einhverju tagi og sálfræðiaðstoð.

Auðvitað ætti sálfræðiþjónusta að vera hluti af daglegri starfssemi við hverja starfsstöð sem kölluð er fangelsi. Þá er mjög alvarlegt að fangar sem hafa fengið aðhlynningu hjá geðlæknum fái ekki að viðhalda sambærilegri meðferð í fangelsinu. Það hljóta allir að vera sammála því að sjúkt fólk eigi ekki að vera vistað í fangelsum. Og sú stefna að refsa fólki fyrir andleg veikindi er sem betur fer að breytast. En betur má ef duga skal og ekki nóg að tala endalaust um vandamálin ef ekkert er gert til að laga þau.

Í eftirfylgni frá því í fyrra með skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis, um skipulag og úrræði í fangelsismálum, frá árinu 2010, kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Árið 2013 ítrekaði Ríkisendurskoðun eina ábendingu til velferðarráðuneytis, þ.e. að tryggja yrði föngum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og mæta þörfum þeirra með viðeigandi greiningu og meðferð, þar með talið á geðdeildum. Þá þyrfti að móta heildarstefnu í málefnum geðsjúkra, fatlaðra og aldraðra dómþola og tryggja að þeirri stefnu yrði hrint í framkvæmd.“

Áfram segir:

„Í svari ráðuneytisins árið 2016 kom fram að unnið væri að því að koma ábendingu Ríkisendurskoðunar í framkvæmd. Nýlega hefði fjölskipuðum starfshópi á vegum innanríkisráðuneytis verið falið að fjalla um málefni geðsjúkra fanga. Í honum yrðu fulltrúar innanríkisráðuneytis, velferðarráðuneytis, Fangelsismálastofnunar, Fangavarðafélagsins, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Landspítala og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. […] Þá kvaðst ráðuneytið áfram sem hingað til vinna að því að skerpa stefnu og bæta úrræði fyrir þá sem vistast í fangelsum landsins og þyrftu á geðheilbrigðisþjónustu að halda.“

Í ljósi þessa vil ég fá skýr svör frá hæstv. dómsmálaráðherra um það hver staðan er í vinnu starfshópsins og af hverju Afstöðu, félagi fanga er ekki boðin þátttaka í þessum starfshópi.

Forseti. Þegar grannt er skoðað hvernig málum er háttað gagnvart föngum er ekki annað hægt en að furða sig á því að það sé t.d. sjálfsagt mál að fangar fái margfalt lægri laun en aðrir launþegar. Einmitt vegna þessa hefur gengið mjög erfiðlega að finna fjölhæf störf fyrir fanga. Það er nefnilega þannig að þegar fólk er svipt frelsi sínu og ekkert er fyrir stafni þá hellist vanlíðan svo skart yfir að allt er reynt, eins og er í mannlegu eðli, til að reyna að flýja óbærileikann.

Það er þekkt að fangar reyna að komast í vímu með því að drekka rakspíra, ilmvötn, acetone og annan lífshættulegan óþverra til að deyfa sjálfsofnæmið. Samt er það alþekkt að edrúgangar og almenn sjálfshjálp sem stuðningur getur dregið úr mikilli og óbærilegri vanlíðan. Það er því dapurlegt að heyra að engin slík úrræði eru í boði fyrir kvenfanga og meira að segja er það alþekkt samkvæmt tölfræði að konur fái síður að afplána í opnum úrræðum. Það er fráleitt skilningsleysi yfirvalda að ekki séu til aðskilin úrræði á við Vernd en ítrekað hefur komið fram að kerfið virðist vera hannað út frá þörfum karlfanga. Það hefur til dæmis verið aflagt að starfskona Stígamóta komi reglulega í kvennafangelsið og ræði þar við fangana, því var víst hætt vegna þess að það þótti of kostnaðarsamt.

Ég mun fara yfir þær spurningar sem ég þarf svör við í síðari ræðu.