146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[16:35]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Í ljósi síðustu orða hv. þm. Nichole Leigh Mosty vil ég taka undir með því að segja að ég vil gjarnan vera talsmaður barna í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Hér liggur fyrir tillaga til þingsályktunar sem byggir á niðurstöðum verkefnisstjórnar og faghópa 3. áfanga rammaáætlunarinnar svokölluðu. Það liggur alveg ljóst fyrir að við verðum að hafa orkuskipti hér á landi og við viljum hafa orkuskipti hér á landi. Parísarsamkomulagið sem Ísland er aðili að gengur út á að halda hlýnun jarðar innan við 2°C. Ef við ætlum að leggja okkar af mörkum í því verðum við að minnka notkun jarðefnaeldsneytis verulega og taka upp hreina, endurnýjanlega orkugjafa í staðinn. Þar mun raforka gegna lykilhlutverki.

Ég ætla þó ekki að ræða einstaka virkjunarkosti hér í dag heldur skoða málið í stærra samhengi. Eins og staða mála er núna er enginn skortur á raforku hér á landi en við verðum vissulega að gera áætlanir til framtíðar. Stærsta vandamálið sem við þurfum að takast á við nú um stundir er skortur á flutningsgetu. Við þurfum að styrkja flutningsnet raforkunnar svo hægt sé að takast á við sveiflur í raforkunotkun með auðveldari hætti en nú er. En það er reyndar annar handleggur og ekki til umræðu hér.

Þann 3. ágúst sl. gerði Landvernd athugasemdir við drög að lokaskýrslu verkefnisstjórnarinnar, þ.e. þeirrar skýrslu sem svo í sinni lokamynd var lögð til grundvallar þessari þingsályktunartillögu. Mig langar að vitna í þessar athugasemdir að hluta til, sérstaklega þær sem snúa að svokallaðri varúðarreglu og háhitasvæðum, með leyfi forseta:

„Ríóyfirlýsingin hefur að geyma 27 grundvallarreglur sem ætlað er að styðja við sjálfbæra þróun um allan heim. Þar á meðal er varúðarreglan. Hún segir að í tilvikum þar sem vísindaleg óvissa leikur á um hvort starfsemi eða stefna geti skaðað almenning eða umhverfi og náttúru, skal sönnunarbyrðin liggja hjá þeim sem ábyrgur er fyrir tilgreindri starfsemi eða stefnu. Þetta þýðir með öðrum orðum að ekki er nauðsynlegt að sanna með óyggjandi hætti að náttúran beri skaða af, heldur skuli hún njóta vafans þegar vísindaleg óvissa er fyrir hendi. Varúðarreglan hefur nú verið tekin upp í íslenska löggjöf með samþykkt náttúruverndarlaga, nr. 60/2013.“

Þessi tilvitnun passar ágætlega inn í þau orð sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hafði hér áðan, og fleiri reyndar, um villtan lax og áhyggjur sem hann hafði af örlögum hans.

Ég held áfram með tilvitnun mína, með leyfi forseta:

„Varúðarreglan á sérstaklega vel við þegar kemur að rammaáætlun, enda vísindaleg óvissa mikil um áhrif bæði vatnsaflsvirkjana (sérstaklega í jökulvötnum) og jarðvarmavirkjana á umhverfi og samfélag. …

Mikil óvissa er um framleiðslugetu og líftíma jarðvarmavirkjana og viðbrögð þeirra við vinnsluálagi. Öll þau háhitakerfi sem nýtt eru og fyrirhugað er að nýta eru ósjálfbær í þeim skilningi að með þeirri nýtingu sem viðhöfð er, er gengið á gufuforða auðlindarinnar. Þetta er almennt viðurkennt meðal vísindamanna. … Ljóst er að yfirleitt er nýting jarðgufu á háhitasvæðum fjarri því að standast skilyrði um sjálfbæra þróun þegar vökvaupptaka úr jarðhitageymunum er mikil og stöðug og endingin miðuð við aðeins um hálfa öld. Þá er þess að geta að rannsóknir sem miða að því að meta afkastagetu háhitasvæðanna, sem flest eru einstök á heimsmælikvarða hvað varðar gerð og ásýnd, raska þeim verulega með mannvirkjum og borunum og hafa ávallt í för með sér óafturkræf umhverfisáhrif.

Óvissa er einnig mikil um heilsufarsleg áhrif jarðvarmavirkjana. Mengun af útblæstri gufu og affallsvatni þeirra er ekki aðeins brennisteinsvetni heldur ýmis eiturefni, svo sem arsen og kadmíum. Þessum efnum hefur lítill gaumur verið gefinn í íslenskri umræðu og því til svarað að sum þeirra séu í óvenju litlu magni hér á landi. Þó ber að hafa í huga að þessi efni eru til staðar, þau eru varasöm og safnast fljótlega upp ef affall er mörg hundruð sekúndulítrar.“

Í ljósi frétta síðustu helgar er ljóst að heilsu fólks er hugsanlega stefnt í hættu. Ekki þarf að deila um þá staðreynd að tveir þriðju hlutar Íslendinga búa á suðvesturhorni landsins þar sem fregnir bárust af brennisteinsmengun, sem ég minntist á áðan. Því segi ég: Leggjum öll áform um virkjanir af þessu tagi til hliðar að sinni. Horfum til vindorku til dæmis. Í umræddri þingsályktunartillögu eru tvö vindorkusvæði skilgreind, annars vegar Blöndulundur og hins vegar Búrfellslundur. Sá fyrrnefndi er í orkunýtingarflokki en sá síðarnefndi í biðflokki. Ég ætla ekki að úttala mig um þessi vindorkusvæði sem slík, til þess skortir mig þekkingu, en ég vil lýsa eftir heildstæðri stefnumörkun í þessum málum. Við þurfum að marka okkur stefnu um það hvar við viljum setja upp vindorkulundi, hversu stórir þeir eiga að vera, hversu stórar vindmyllurnar eigi að vera, hver sýnileikinn eigi að vera o.s.frv.

Svo get ég ekki látið hjá líða að minnast á sjávarfallavirkjanir. Rannsóknir á þeim eru stutt á veg komnar og ég held að ástæða sé til að gefa þeim nánari gaum.

Virðulegur forseti. Það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina, segir spakmælið. Tækniframfarir eru miklar á sviði rafmagns og rafmagnsnotkunar. Við vitum að ljósaperur og ýmsar gerðir raftækja nota miklu minna rafmagn en áður var. Kannski mun smávirkjunum fjölga, kannski koma til sögunnar rafgeymar sem hægt er að hlaða þegar álag er lítið á rafkerfunum svo nota megi þá á álagstímum. En hvað svo sem framtíðin ber í skauti sér er ljóst að í öllum okkar áætlunum og öllum okkar gjörðum verðum við að láta náttúru og heilsu fólksins sem landið byggir njóta vafans.