146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[19:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja hana fram og framsögu hennar og það að hæstv. ráðherra hefur verið viðstaddur þá umræðu sem átt hefur sér stað í dag. Ég verð að viðurkenna að ég hef persónulega ekki djúpa þekkingu eða kunnáttu til að hafa skoðun á einstökum virkjunarkostum. Ég hygg að við, hv. þingmenn, séum kannski flest í þeirri stöðu. Þess vegna tel ég að þetta verkfæri sem rammaáætlunin er sé gott. Ég hef ákveðnar væntingar um að það geti skapað ásættanlega sátt um þennan mikilvæga málaflokk. Með leyfi forseta ætla ég að fá að grípa aðeins niður í upphafið á greinargerðinni sem fylgir þingsályktunartillögunni, en þar segir:

„Að mati umhverfis- og auðlindaráðherra er mikilvægt að Alþingi fjalli efnislega um tillögur verkefnisstjórnar og því hefur ráðherra ákveðið, í samráði við ráðherra orkumála, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 48/2011, að tillögur verkefnisstjórnar verði lagðar aftur fyrir þingið í sömu mynd.“

Mér þykir býsna mikilvægt að tillagan komi beint frá verkefnisstjórninni óbreytt og fari í þinglega meðferð. Ég sit í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og treysti mér vel í það verkefni að fara yfir þetta verkefni, fara yfir þær athugasemdir sem hafa komið fram á ferlið. Hér höfðu hv. þingmenn mismunandi skoðanir á þessari þingsályktunartillögu, það hefur komið fram í umræðunni, og ég tel mikilvægt að við í nefndinni förum yfir það. Ef einhver gagnrýni er á verkferla eða einhverja ákveðna virkjunarkosti fram yfir aðra er mikilvægt að nefndin taki það til umræðu og fari yfir það.

Þó minni ég á að í þessari verkefnisstjórn og undirhópum sem hafa verið skipaðir af henni er fjöldinn allur af fagaðilum, þannig að ég hef enga ástæðu til annars en að ætla að þær tillögur sem hér eru lagðar fram séu vel ígrundaðar og undirbúnar af fagaðilum. Því myndi maður ætla á fyrstu stigum að það gæti skapast ágætissátt um þessa tillögu, en eins og ég sagði áðan er ekkert yfir gagnrýni hafið og við eigum að sjálfsögðu að fara yfir málið. Ég held að það sé mjög mikilvægt og ég fagna því að hæstv. ráðherra hafi kallað eftir þessari þinglegu meðferð því að á endanum, þrátt fyrir að við höfum skipað fagaðila í að vinna þessa vinnu, er ábyrgðin Alþingis og við eigum að taka ábyrgð á því mikilvæga verkefni sem rammaáætlunin er. Ég vænti þess að við, hv. 63 þingmenn, höfum fulla burði til að klára þetta verkefni. Ég hef heyrt suma hv. þingmenn nefna það í ræðum að kannski sé ekki ástæða til að klára þetta mál. Ég vil vera bjartsýn, við erum rétt að byrja verkefnið, ég er reyndar ein af þessum nýju þingmönnum, það kann að vera að sumir hér sem rætt hafi málið áður séu reyndari og hafi fjallað um það áður og hafi þar af leiðandi myndað sér ákveðnar skoðanir, en eins og ég segi hef ég fulla trú á því að við getum klárað þetta mikilvæga mál.

Að því sögðu langar að minnast á það sem komið hefur fram í þingræðum í dag um þetta mál, m.a. hjá hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur, formanni umhverfis- og samgöngunefndar, að það skiptir ekki síður máli hvernig við dreifum raforkunni um landið. Ég hallast eiginlega að því að það sé kannski öllu brýnna verkefni akkúrat núna að reyna að ná sátt um það hvernig við byggjum upp dreifikerfi um landið þannig að orkan dreifist jafnt til allra landshluta og hægt sé að nýta þessa umhverfisvænu orku okkar úti um landið allt.

Mig langar líka að koma aðeins inn á það sem fjallað er um í rammaáætluninni hvað vindorku varðar. Ég fagna því að sá orkukostur er nefndur í rammaáætluninni en ég velti því reyndar líka upp hvort við á þinginu þurfum að árétta það með einhverjum hætti að vindorka þurfi líka að fara í gegnum rammaáætlun og það faglega mat. Ég les það út úr skýrslu verkefnisstjórnar að verið hafi ákveðinn ágreiningur um það milli Orkustofnunar annars vegar og hins vegar ráðuneytisins. Mín skoðun er alla vega sú að mikilvægt sé að vindorkan sé hluti af þessu ferli og fari í gegnum þetta mat.

Ég velti því líka fyrir mér hvort það kunni jafnvel að vera fleiri kostir í þeim efnum. Ég er enginn sérfræðingur í þessum málum en þó er eitt sem heillar mig mjög við vindorkuna og það er ekki hversu falleg þessi mannvirki eru, mér finnst þau ekkert sérstaklega falleg, en það er að þau eru afturkræf. Það kann að vera mikill kostur þegar við ræðum vernd náttúru, sjálfbærni og að taka ákvarðanir fyrir komandi kynslóðir.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna neitt meira. Ég hlakka til samstarfsins í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og treysti því eiginlega að við getum náð utan um þetta mikilvæga verkefni.