146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[21:14]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvar eigum við að nýta 1.400 megavött? Ég lít svo á að þetta plagg sé stefnumótun og sýn til framtíðar. Ég held að vísu að enginn hérna inni sé að hugsa þetta þannig að við séum bara búin að koma því þannig fyrir að nú þegar sé komin einhver þörf fyrir 1.400 megavött inn í kerfið af einhverjum fyrirtækjum eða grænum fyrirtækjum, gagnaverum eða hvað. Við erum að hugsa langt fram í tímann, ég lít meira á þetta þannig. Ég get ekki sagt, ekki frekar en aðrir ágætir þingmenn hér, nákvæmlega í hvað eða hvort við munum nokkurn tímann nota þessi 1.400 megavött. Hins vegar eigum við eins og ég sagði áðan gríðarlega möguleika á orku og þetta er ein af okkar stóru auðlindum. Svo sannarlega er það mikil samkeppnishæfni sem við fáum út úr þessari auðlind út á við og í samkeppni þjóðanna og öllu sem því fylgir.

Grænn iðnaður náttúrlega, gagnaverin og annað. Eins og ég hef alltaf hugsað þetta, og það er kannski ekki langur tími til að fara í þetta, þá er það: Hvar hámörkum við okkar auðlindir? Á hvaða sviðum? Ég hef aldrei séð það reiknað út hvað gagnaverin gefa okkur nákvæmlega, hvað græni iðnaðurinn gefur okkur nákvæmlega, álverin eða kísillinn eða hvað það er. Þessi stefnumótun og framtíðarsýn, við erum bara ekki komin lengra en það. Ég hef a.m.k. aldrei séð þetta sett á borð þannig að við getum metið nákvæmlega — eða ferðaþjónustuna ef út í það er farið eða sjávarútveginn — hvar við nýtum þetta best.

Fyrir mér snýst þetta um, eins og ég segi, að við erum að horfa til framtíðar. Þá er betra að vera búinn að hugsa þetta til lengri framtíðar heldur en við séum frá ári til árs í einhverju þjarki hér um að redda orku, 25 megavöttum í þetta, 50 í þetta og annað. Við séum með heildarsýnina afmarkaða og hvernig við viljum horfa á þetta. Ég fer ekki lengra að sinni.