146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:06]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa komið inn á þá umræðu sem átti sér stað í gær varðandi orð hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ég verð að játa að mér finnst pínulítið ankannalegt að kalla eftir viðbrögðum frá virðulegum forseta en fá engin svör um hvort þau áköll hafi komist til skila eða ekki. Sannast sagna vitum við þingmenn ekkert hvort ráðherra hafi borist þau skilaboð sem komu þó skýrt fram hjá mörgum í gær. Ég minni á að hæstv. fjármálaráðherra er líka þingmaður. Honum er í lófa lagið að koma hér upp í ræðustól, þess vegna undir störfum þingsins eða öðrum liðum, og einfaldlega ræða við okkur í þinginu. En ég kalla eftir skýrum svörum frá virðulegum forseta um hvort þessum skilaboðum (Forseti hringir.) hafi verið komið til hæstv. ráðherra.