146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Andri Þór Sturluson (P):

Virðulegi forseti. Það þarf greinilega að lúslesa Morgunblaðið á hverjum morgni eins og maður væri dulmálsfræðingur í seinni heimsstyrjöldinni til að vita réttindi sín og hvaða breytingum verið er að smygla fram hjá manni. Sama dag og samræmdu prófin hefjast birtist það í Morgunblaðinu að framhaldsskólum landsins sé í sjálfsvald sett hvort þeir nýti sér einkunnir úr samræmdu prófunum í 9. bekk til að greina á milli væntanlegra nýnema.

Það þarf að hitta á fyrir heppni að lesa eina málsgrein í fjölmiðlaflóru landsins til að sjá að fyrrverandi menntamálaráðherra breytti tilgangi og eðli samræmdu prófanna, ráðherra í starfsstjórn á þeim tíma meira að segja. Það bendir allt til þess að fjölmargir sem nú þreyta samræmd próf hafi ekki með nokkru móti getað vitað að þeim getur verið hafnað um framhaldsskólavist á grundvelli þeirra.

Ég og fleiri stóðum í þeirri meiningu að það væri liðin tíð að þessi próf ættu að skilja á milli feigs og ófeigs. Það var búið að ákveða að hætta þessu skaðlega rugli sem samræmdu prófin voru. Nú er allt í einu aftur opnað á að hægt sé að beita þeim eins og einhverri fallöxi og það tilkynnt í blaði sem nemendur í grunnskólum eru að öllu jöfnu ekki áskrifendur að. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)