146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

störf þingsins.

[15:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég óska konum landsins til hamingju með þennan baráttudag. Í fréttum RÚV kom fram að stórkostleg skattsvik eru í gangi og eru til rannsóknar hjá embætti skattrannsóknarstjóra. Í umsögn skattrannsóknarstjóra um þingsályktunartillögu okkar Vinstri grænna um keðjuábyrgð, sem nú er til umsagnar í velferðarnefnd, kemur m.a. fram að verktakar hafi í vaxandi mæli gert ráðstafanir til að komast hjá greiðslu skatta og reynt að koma ábyrgð á skattgreiðslum á undirverktaka. Bent er á að margt bendi til þess að það væri nú gert með miklu skýrari ásetningi og að um væri að ræða verulega háar fjárhæðir. En með tillögu okkar Vinstri grænna um keðjuábyrgð myndu aðalverktakar bera fjárhagslega ábyrgð á því að undirverktakar hans og vörusalar virði ákvæði kjarasamninga og fari að lögum. Þörfin á að slík keðjuábyrgð sé lögfest er greinilega mikil miðað við að nú eru 22 mál til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra og þar undir liggja 2 milljarðar. Það eru engar smáfjárhæðir í samhengi við þörf til samgöngumála og annarrar uppbyggingar í landinu.

Víða erlendis hafa ákvæði um keðjuábyrgð verið sett inn í kjarasamninga og einnig hér á landi í útboðsskilmála nokkurra sveitarfélaga og opinberra stofnana. Við þekkjum mál Samherja í Hollandi sem kom upp á dögunum og er til rannsóknar þar, þar sem lög um keðjuábyrgð eru í gildi og ná til opinberra gjalda og kjara launafólks.

Það er því mjög brýnt að samþykkja tillögu Vinstri grænna um keðjuábyrgð og lögfesta hana. Þeir umsagnaraðilar sem skilað hafa inn umsögnum í velferðarnefnd eru mjög jákvæðir; ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri og Starfsgreinasamband Íslands. En Samtök atvinnulífsins eru ekki jafn (Forseti hringir.) jákvæð og maður furðar sig á því miðað við alvarleika málsins.