146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:13]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Þegar kemur að því að réttlæta tilvist menntunar eru til margar leiðir. Það er algengt að gera það með því að vísa í einhvers konar not samfélagsins, segja að það sé gott að hafa raungreinamenntun því að þá eflum við einhvern veginn iðnaðinn eða nýsköpun. Ég geri ekki lítið úr því að þetta eru mikilvæg rök En það eru auðvitað til önnur og ekki síður mikilvæg rök. Þau eru að góð menntun hafi gildi í sjálfu sér. Þess vegna þykir mér sérstaklega vænt um þá setningu sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson las hér upp áðan úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að traust menntun óháð efnahag sé mikilvæg forsenda þess að hver og einn einstaklingur fái að blómstra.

Það finnst mér mikilvæg nálgun. Ég held að við eigum að viðurkenna og líta þannig á menntun að við sem ríkt og gæfuríkt þjóðfélag gefum einstaklingum tækifæri til að eyða hluta ævi sinnar í að vera í umhverfi þar sem þeir geta þroskað og þróað sín hugðarefni og deilt stundum með öðrum einstaklingum sem hafa sameiginleg áhugasvið og vilja þroska þær áherslur.

En þessu tengt langar mig að vekja athygli á máli sem ég veit að margir meðal stúdenta hafa ákveðnar áhyggjur af og lýtur að fæðingarorlofsrétti námsmanna. Þannig er mál með vexti að þeir sem eru í námi og þurfa að fara í fæðingarorlof eiga rétt á fæðingarstyrk sem nemur rúmum 160 þúsund krónum, sem er ekki mikið. Þeir geta samt ekki aukið þann rétt, vinna þeirra í atvinnulífinu eykur ekki þann rétt. Upphæðin hækkar sem sagt ekki. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þarna er um peninga að ræða og allt kostar þetta pening, en að einhverju leyti er það ákveðið réttlætismál um hvernig við dreifum þessu fé. Ég held að það væri vert fyrir þennan sal að hafa í huga hvernig þessum málum er háttað.