146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka öllum sem hér hafa talað og lagt gott til málanna. Hv. þm. Oddný Harðardóttir svaraði auðvitað hæstv. ráðherra ágætlega með þessa 25 ára reglu vegna þess að þetta var bara orðhengilsháttur, þetta snýst auðvitað um það að settir voru minni fjármunir í þetta sem varð til þess að nemendum fækkaði úr 1.165 í 718, eða um 447 af þessum hópi. Þannig að ég get allt eins snúið spurningunni við: Hyggst hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að auka fjármagnið þannig að þessi hópur komist aftur að námi? Þeir sem hafa fylgst með þróun skólamála sjá vel að á liðnum árum hefur vantað meiri peninga inn í skólakerfið. Það eru engin áform hjá núverandi ríkisstjórn að bæta þar úr.

Svo ég komi aðeins að seinni spurningunni. Í stjórnarsáttmálanum segir að tryggja þurfi jafnræði nemenda og valfrelsi með því meðal annars að styrkja fjölbreytt rekstrarform, með leyfi frú forseta. Við hvað er átt? Hvernig tryggir fjölbreytt rekstrarform jafnræði nemenda? Þetta er kunnuglegur tónn. Lausnin felst í einkarekstri.

Að mínu mati er eina rétta leiðin við núverandi aðstæður að byggja upp öflugt opinbert kerfi sem gefur öllum rétt á að sækja nám hvar sem þeir búa, hvaða efni sem þeir hafa og hvenær sem þeir vilja og hentar þeim best að sækja námið.

Ég þarf því að fá spurningu við því að lokum, frú forseti, því að hæstv. ráðherra svaraði mér ekki um það hvort leggja ætti á hærri skólagjöld. Ég vil líka fá spurningu: Hvernig tryggir fjölbreytt rekstrarform jafnræði nemenda?