146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Á íslensku má alltaf finna svar, líka spurningu. Ég vænti þess að hv. fyrirspyrjandi hafi viljað fá svar við spurningunum, ekki endilega nýjar spurningar frá þeim sem hér stendur.

Ég hef engin áform, bara svo því sé strax svarað, um einhverja hækkun á skólagjöldum eða annað því um líkt, það liggur ekkert fyrir í því.

Varðandi einkaskóla eða fjölbreytt rekstrarform er ég einfaldlega þeirrar skoðunar og er fylgjandi því að fólk hafi úr sem mestu að velja þegar það gengur til náms á hvaða stigi svo sem það er. Það verður tryggt með opinberri fjármögnun og eftirliti eins og við þekkjum báðir hv. þingmenn. Akureyrarbær, þar sem við höfum báðir reynslu, rekur og fjármagnar einkarekinn leikskóla og gengur bara mjög vel, frábær starfsemi, foreldrar hafa kosið að eiga þar vist með börnum sínum og fá fína fræðslu.

Varðandi aðra þætti sem hafa komið hérna fram, þar sem hv. þingmenn hafa komið mjög víða við, vil ég fyrir það fyrsta þakka umræðuna. Ég segi það strax að á þeim 50 sekúndum sem ég á eftir hér mun ég aldrei svara megninu af þeim fyrirspurnum.

Varðandi 25 ára regluna þá er það eins og hv. málshefjandi vakti athygli á, það er fjármögnun framhaldsskólakerfisins. Reglunum hefur ekkert verið breytt. Reglugerðin er sú hin sama og sett var 2008 (Gripið fram í.) Það hafa ekki verið (Gripið fram í.) sett nein ákvæði um 25 ára takmörkun inn í framhaldsskóla. Það er (Gripið fram í.) langur vegur frá að svo sé. Reglugerðinni var breytt 2012. (Gripið fram í: Svara.) Hún er óbreytt og hún verður óbreytt. (Gripið fram í: En ætlarðu að bæta við fjármagni?) Það er undir Alþingi komið (Forseti hringir.) og við gerðum það ágætlega í fjárlögum ársins 2017 og ég vænti þess að eiga gott samstarf við Alþingi þegar við afgreiðum fjárlög ársins 2018. Ég heyri það á flestum sem hafa tekið til máls að þeir styðja aukin fjárframlög í framhaldsskólana. Ég fagna því heiftarlega eins og góður Svarfdælingur sagði. [Hlátur í þingsal.]