146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[18:57]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Best að slá í klárinn fyrst svo margir þurfa að veita andsvör. Ég verð að játa að ég klóraði mér aðeins í kollinum yfir því sem kom fram í máli hv. þingmanns um að það væri möguleiki að lágmarksútsvar gilti kannski bara fyrir ákveðna stærð af sveitarfélögum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig það fer heim og saman við þá miklu frelsisvæðingu fyrir hönd sveitarfélaganna sem hér er boðuð, um að það sé beinlínis bara jafnvel allt að því lögbrot að vera með eitthvað lögbundið útsvar fyrir þau. Hverju breytir það í þeirri hugmyndafræði fyrir hv. þingmanninn að tengja það stærð sveitarfélaga? Svo langar mig að spyrja hv. þingmann út í þessa setningu í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Óeðlilegt er að bundið sé í lög að innheimta skuli að lágmarki tiltekinn skatt af íbúum, hvort sem þörf sé á honum til að sinna lögbundnu hlutverki eða ekki.“

Telur hv. þingmaður að þetta eigi almennt við um skattheimtu (Forseti hringir.) og af hverju er bara talað um lágmark útsvars? Vill hv. þingmaður líka afnema hámark útsvars?