146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

hlutafélög o.fl.

237. mál
[11:43]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur á þskj. 329, mál nr. 237.

Hér er að meginstefnu til um að ræða einföldun á regluverki atvinnulífsins, aukin skilvirkni, minna skrifræði og einfaldari samskipti við opinbera aðila um leið og kostnaði er haldið niðri. Unnið hefur verið að því í ráðuneytinu í samvinnu við fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra að endurskoða félagalöggjöfina í þeim tilgangi að einfalda regluverk atvinnulífsins, en tillögurnar í þessu frumvarpi lúta að einföldun regluverks hlutafélaga og einkahlutafélaga.

Í frumvarpinu er einnig brugðist við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA vegna skilyrða um búsetu og heimilisfesti stofnenda, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og útibússtjóra hlutafélaga, einkahlutafélaga og sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur.

Þá eru í frumvarpinu lagðar til minni háttar breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög sem liður í því að stemma stigu við misnotkun á félagaforminu.

Samantekið eru breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu þríþættar. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar til einföldunar á lagaumhverfi hlutafélaga og einkahlutafélaga. Í gildandi lögum er gert að skilyrði að meiri hluti stofnenda hlutafélags skuli hafa heimilisfesti hér á landi eða helmingur sé tala stofnenda jöfn. Búsetuskilyrði gildir ekki um ríkisborgara EES-ríkja, aðildarríkja stofnsamnings EFTA og Færeyinga séu þeir búsettir í framangreindum ríkjum. Aðrir en framangreindir aðilar þurfa undanþágu ráðherra. Slíkar undanþágur eru almennt veittar, en auk þess geta erlendir einstaklingar og lögaðilar óháð búsetu og heimilisfesti keypt hlut í félögum sem þegar hafa verið stofnuð.

Lagt er til að skráð félagasamtök og lífeyrissjóðir geti stofnað hlutafélag og einkahlutafélag án þess þurfa til þess undanþágu ráðherra líkt og nú er. Slík undanþága er einnig almennt veitt sé eftir henni óskað, en framangreindir aðilar geta auk þess keypt hlut í félögum sem þegar hafa verið stofnuð.

Lagt er til að frestur til að senda hlutafélagaskrá tilkynningar verði í nokkrum tilvikum lengdur úr tveimur vikum í fjórar vikur. Er fresturinn þannig færður til samræmis við almennan tímafrest um skráningu og tilkynningar, en ákvæði um skráningu er að finna í lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.

Gerð er tillaga um breytingu á ákvæði um hvað tilkynning um stofnun útibús erlends hlutafélags og einkahlutafélags skuli innihalda og hvaða gögn skulu fylgja slíkri tilkynningu.

Í öðru lagi eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á skilyrðum um búsetu stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og útibússtjóra hlutafélaga, einkahlutafélaga og sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur þannig að búsetuskilyrðið gildi ekki fyrir ríkisborgara EES-ríkis, aðildarríkis stofnsamnings EFTA og Færeyja, sama hvar þeir eru búsettir í heiminum, sem og einstaklinga sem búsettir eru í framangreindum ríkjum. Með breytingunni er brugðist við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA um að skilyrði um búsetu og heimilisfesti stofnenda, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og útibússtjóra hlutafélaga, einkahlutafélaga og sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur séu ekki í samræmi við EES-samninginn.

Í þriðja lagi eru síðan lagðar til minni háttar breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög sem liður í því að stemma stigu við misnotkun á félagaforminu. Mikilvægt er að gæta meðalhófs við leit að leiðum til úrbóta og þær aðgerðir sem ráðist verður í séu vel ígrundaðar. Breytingarnar mega ekki vera of íþyngjandi fyrir atvinnulífið eða hindra frumkvöðla og nýsköpunarstarfsemi.

Samþykktar hafa verið breytingar á lögum um ársreikninga sem m.a. er ætlað að tryggja að hlutafélög og einkahlutafélög skili ársreikningi til opinberrar birtingar. Gert er ráð fyrir að breytingarnar leiði til þess að á hverjum tíma liggi fyrir betri upplýsingar um fyrirtæki í rekstri. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til auk þeirra breytinga sem lagðar hafa verið til á lögum um ársreikninga er stigið skref, annars vegar til að stemma stigu við misnotkun á félagaforminu og hins vegar til að greina megi betur umfang vandans sem af henni hlýst.

Þessar breytingar eru eftirfarandi:

Lagt er til að ekki verði lengur hægt að greiða hlutafé við stofnun hlutafélags og einkahlutafélags með kröfu á hendur stofnendum félagsins. Þrátt fyrir að slíkt sé ekki algengt þykir rétt að leggja til umrædda breytingu, m.a. sem lið í því að tryggja að hlutafé eða verðmæti komi sannarlega inn í hlutafélag við stofnun þess.

Lagt er til að missi stjórnarmenn hlutafélags eða einkahlutafélags hæfi til setu í stjórn og framkvæmdastjórar hæfi til að gegna starfi sínu skulu þeir upplýsa hlutafélagaskrá þar um. Í framkvæmd hefur hlutafélagaskrá afskráð stjórnarmenn og framkvæmdastjóra missi þeir hæfi sitt til setu í stjórn eða til að gegna setu framkvæmdastjóra. Er breytingin lögð til í samræmi við framkvæmdina.

Lagt er til að skráning stjórnarmanna og framkvæmdastjóra skuli standa óbreytt í hlutafélagaskrá eftir að héraðsdómari hefur kveðið upp úrskurð um að bú félagsins verði tekið til skipta.

Verði frumvarp þetta að lögum mun það einfalda tiltekin atriði við stofnun, starfsemi og skráningu hlutafélaga og einkahlutafélaga. Breytingarnar hafa áhrif á samskipti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og fyrirtækjaskrár við stofnendur og stjórnendur slíkra félaga, en ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á stjórnsýslu ráðuneytisins eða stofnunarinnar eða rekstur svo að nokkru nemi.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Hæstv. forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni þýðingarmikið frumvarp sem miðar að því að einfalda lagaumhverfi hlutafélaga og einkahlutafélaga og að koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA vegna skilyrða um búsetu og heimilisfesti, líkt og áður hefur verið rakið. Jafnframt eru í frumvarpinu lagðar til minni háttar breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög sem liður í því að stemma stigu við misnotkun á félagaforminu.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar og meðferðar.