146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

útlendingar.

236. mál
[12:36]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir framsögu hennar. Málið mun núna fara til allsherjar- og menntamálanefndar. Ég tel að það sé fyllilega ástæða til þess að við förum vel yfir það sem hér er verið að gera upp á það hvort rétt sé að gera það með þeim hætti sem hér er verið að leggja til, líkt og allsherjar- og menntamálanefnd hefur lagt sig fram um að vinna mjög vel útlendingalögin og bregðast við þeim athugasemdum sem komið hafa fram.

Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp snýr meira að því að spyrja ráðherrann, ef hún hyggst koma hér upp í lok umræðunnar. Komið hafa fram ábendingar um mikilvægi þess að jafna stöðu þeirra sem koma til Íslands og sækja um hæli, um alþjóðlega vernd og þeirra sem koma sem kvótaflóttamenn. Ég hefði áhuga á að heyra frá ráðherranum hvaða afstöðu hún hefur til þess og hvað hún mundi vilja gera til þess að geta jafnað þá stöðu.

Síðan mundi ég einnig gjarnan vilja spyrja ráðherra, ef hún hefur mótað sér afstöðu til þess, varðandi þær hugmyndir sem komið hafa fram um breytingar á Útlendingastofnun. Það hafa margoft komið fram athugasemdir um að ferlið sé tvískipt, annars vegar það snýr að atvinnuleyfum sem Vinnumálastofnun fer með og hins vegar það sem snýr að dvalarleyfum sem Útlendingastofnun fer með, þó að menn séu nú búnir að sameina úrskurðarnefndinrnar í nýju útlendingalögunum.

Mér þótti áhugavert að þetta væri ein af megintillögunum því að það hafði ekki verið mín tilfinning þegar ég var í velferðarráðuneytinu að megináherslan væri á að breyta stofnanaskipan. Það væri hins vegar áhugavert að heyra hver afstaða ráðherra er.

Eru einhver önnur atriði sem komið hafa fram sem ráðherrann er að skoða varðandi breytingar á útlendingalöggjöfinni, annaðhvort til þess að útvíkka þau enn frekar eða þrengja?