146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

fríverslunarsamningar.

[15:17]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Virðulegur forseti. Hér fer fram þörf umræða stöðu Íslands og tengsl við umheiminn með sérstakri áherslu á viðskiptatengsl. Í núverandi stöðu skiptir tvennt okkur langmestu máli. Annars vegar er það aðild okkar að EFTA og þeir fríverslunarsamningar sem gerðir eru á vegum þeirra samtaka. Hins vegar er það EES-samningurinn sem ber höfuð og herðar yfir alla að mikilvægi. Hann tryggir okkur fríverslun, þó vissulega með veigamiklum undantekningum séð varðandi afurðir landbúnaðar og sjávarútvegs. Auðvitað er EES-samningurinn miklu meira en hefðbundinn fríverslunarsamningur eins og við vitum öll. Fyrir utan þetta hefur Ísland gert þrjá samninga í eigin nafni, þ.e. við Kína og Færeyjar, þ.e. Hoyvíkursamninginn, og síðan viðskiptasamning við Grænland.

Það sem að framan er rakið sýnir glöggt að viðskiptanet okkar og tengsl byggja nánast eingöngu á samvinnu við önnur ríki í þessum efnum, nefnilega aðild okkar að EFTA og EES-samningnum. Það sýnir hve mikilvægt það er okkur að taka þátt í slíku samstarfi, það er aðgöngumiði að mikilvægustu mörkuðum Íslands. Þrátt fyrir allt verða Evrópulönd okkar mikilvægustu markaðir um langa framtíð, við þekkjum þá best og þeir liggja okkur næst.

Vissulega eru markaðir utan Evrópu mikilvægir en þeir munu aldrei komast með tærnar þar sem Evrópa er með hælana þar sem okkar stærstu viðskiptahagsmunir liggja. Í þessu samhengi er rétt að minna á að Evrópusambandið er með langstærsta viðskiptanet af þessu tagi og nær það til á bilinu 80–100 landa um víða veröld. Vissulega þarf að gæta hagsmuna okkar við Brexit en það má þó alls ekki yfirskyggja aðra og mikilvægari hagsmuni.

Virðulegur forseti. Hafi menn raunverulegan áhuga á því að efla fríverslunartengsl Íslands sem víðast er aðild að ESB auðvitað tvímælalaust kostur (Forseti hringir.) sem rétt er að hafa með í umfjöllun um Ísland og fríverslun.