146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

135. mál
[16:17]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að ég og hv. þingmaður erum nánast fullkomlega sammála vegna þess að við erum sammála um að undirbúa þurfi slíkar breytingar mjög vandlega. Ég geri ekki lítið úr því. Ég ætla að bjóða hv. þingmanni hér með að koma með mér suður eftir og hitta Gæsluna, fara vel yfir málin með þeim. Það hef ég gert margsinnis. Þetta er ekki mál sem ég gríp úr lausu lofti og gef mér forsendur í. Ég er búin að vinna að því í mörg ár í samstarfi við starfsmenn Gæslunnar, hluta þeirra. Auðvitað eru menn ósammála þar innan húss eins og víðar um hvaða leið sé best að fara. En þetta er ekki eitthvert mál sem ég hendi hér fram. Það á sér margra ára forsögu frá því áður en ég kom á þing.

Ég heyri að hv. þingmaður er áhugasamur og það væri mjög fróðlegt fyrir hann að skoða húsnæðið sem ég nefndi sem við rekum nú þegar, sem er mjög rúmgott. Aðstaðan er fyrir hendi. Þarna getur öll Gæslan verið á sama stað með öll æfingasvæði. Þarna eru æfingar reglulega á vegum samstarfsríkja okkar sem Landhelgisgæslan tekur þátt í. Þarna er allt til staðar á meðan flugdeildin er orðin mjög aðþrengd á Reykjavíkurflugvelli. Þar er ekki framtíðin. Framtíðin er ekki á Reykjavíkurflugvelli, ef hv. þingmaður hefur skoðað húsnæðið þar. Þeir eru á undanþágum með þetta húsnæði. Það er algjörlega óboðlegt og löngu úrelt.

Eins og ég nefndi áðan með hafnaraðstöðuna í Reykjavík þá eru þeir lengi að komast úr höfn. Það yrði miklu betra fyrir þá að vera í höfnunum suður frá, þeir eru miklu fljótari út á miðin. Um þetta snýst þetta, að veita borgurum öryggi. Eins og ég sagði og ítreka er ég er ekki að tala um að það eigi að fara af stað með flumbrugangi og drífa sig. Tökum þetta á fimm eða tíu eða fimmtán árum. (Forseti hringir.) Tökum þetta bara og keyrum það áfram. Þetta skiptir máli.