146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

fátækt á Íslandi.

[15:25]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra. Það er óhætt að mæla með þáttum Mikaels Torfasonar í útvarpinu á laugardagsmorgnum um fátækt. Það er því miður engin skemmtihlustun heldur birtist þar nákaldur veruleikinn á þessari velsældareyju okkar þar sem hagvöxtur er í sögulegu hámarki og helstu vandræðin birtast í sísterkari krónu og ofhitnun hagkerfisins. Ljósi punkturinn er auðvitað að upplifa ótrúlegt æðruleysi og dugnað og skilyrðislausa ást foreldra á börnum sínum. Í þáttunum er varpað upp hversdagsbrotum úr lífi og aðstæðum venjulegs fólks, einstaklinga og fjölskyldna sem berjast við að draga fram lífið á allt of lágum launum á rándýrum og ótryggum húsnæðismarkaði, svipmyndum af venjulegu fólki sem þarf að ákveða hvort það borgar reikninga, veitir börnum sínum möguleika á tómstundum eða sjálfu sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, í þessum tilfellum voru nefnd geðlyf og tannlækningar. Afleiðingar fátæktar eru okkur öllum kunnar, óöryggi, vanvirkni, félagsleg útskúfun, skömmun og í versta falli sultur.

Frú forseti. Þetta er ógeðslegt. Hér inni getur enginn flokkur lýst sig saklausan af ástandinu. Fyrir utan auðvitað þjóðarskömmina, að land sem er ríkt láti þetta óréttlæti viðgangast. Hvernig í ósköpunum getum við kallað þetta stöðugleika? Við erum að bregðast tugþúsundum Íslendinga og ungu fólki sem á að verða burðarás hér í samfélaginu á næstu árum.

Spurningin er: Til hvaða aðgerða ætlar ríkisstjórnin að grípa til að bregðast við fátækt á þessum uppgangstímum? Ætlar hæstv. ráðherra með markvissum aðgerðum að ráðast gegn fátækt? Kemur þá til greina að fara í skattkerfisbreytingar og jafna stöðu tekjuhópa? Hækka fjármagnstekjuskatt, fara í skarpari þrepaskatt, taka upp hátekjuskatt eða auðlegðarskatt? Þannig getum við komið í veg fyrir að fólk þurfi að velja á milli þess að kaupa sér mat, veita börnunum tómstund eða fara sjálft til læknis. (Forseti hringir.) Er herra ráðherra sammála þessum leiðum?