146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða.

[15:57]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu um skipulag haf- og strandsvæða. Við erum alltaf að læra það betur og betur að allar tegundir atvinnuuppbyggingar hafa í för með sér einhverjar hliðarverkanir, hvort sem um er að ræða virkjun, ferðaþjónusta eða fiskeldi í sjó. Allir þessir hlutir geta verið jákvæðir fyrir á atvinnulífið, en líka falið í sér hættur fyrir náttúruna. Eins og oft vill verða, reyndar oftast, fer atvinnulífið gjarnan hratt af stað þegar eitthvað borgar sig, hraðar en löggjafinn. Afköst fiskeldisins jukust þannig um 80% frá árinu 2015 til ársins 2016.

Við í Viðreisn höfum verið jákvæð í garð þeirrar hugmyndar að skipulagsvald sveitarfélaga verði fært út fyrir netalög. Í stefnu okkar segir:

„Vaxandi fiskeldi við strendur landsins krefst þess að skoðað verði hvort ekki sé nauðsynlegt að skipulagsvald sveitarfélaga verði víkkað út fyrir netlög, þ.e. 115 metra frá stórstraumsfjöruborði.“

En auðvitað er þetta mál stórt og flókið og það er mikilvægt að við vöndum okkur. Lærum af reynslu annarra þjóða. Tryggjum ákveðinn stöðugleika í greininni og um leið hagsmuni náttúrunnar sem og aðkomu heimamanna að uppbyggingu atvinnulífsins og skipulag svæðisins. En um leið þurfum við að sjálfsögðu að tryggja hagsmuni heildarinnar.