146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

framhaldsskóladeild á Reykhólum.

191. mál
[16:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Þann 31. maí 2016 samþykkti ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins að skipa nefnd til að vinna aðgerðaáætlun á sviði samfélags- og atvinnuþróunar fyrir Vestfirði, þ.e. Vestfjarðanefndina. Vinnan fór fram undir forystu forsætisráðuneytisins en í nánu samstarfi við önnur ráðuneyti og í samráði við stýrihóp ráðuneytanna um byggðamál.

Vestfjarðaskýrslan var kynnt í ríkisstjórn þann 5. september 2016 og einnig á haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga þann 9. september 2016. Í Vestfjarðaskýrslunni kemur fram að sóknarfæri séu í stofnun fræðslumiðstöðva þar sem hægt verði að stunda fjarnám á ýmsum stigum, sérstaklega á framhaldsskólastigi, svo að börn geti stundað nám í heimabyggð. Þessum fræðslumiðstöðvum hefur verið komið upp á Hólmavík og í Vesturbyggð en slíku er ekki fyrir að fara í Reykhólahreppi.

Í skýrslunni er lagt til að framhaldsskóladeild verði stofnuð í Reykhólahreppi. Rökstuðningur fyrir þessari tillögu er sá að nú eru stórir árgangar á Reykhólum, þ.e. unglingar sem eru að nálgast framhaldsskólaaldur. Fram kemur að vísir sé að framhaldsdeild á Hólmavík og Reykhólahreppur sækist eftir því að fá að vera í samfloti með Strandamönnum um fjölbreytta kennslu á framhaldsskólastigi. Undirbúningur um framkvæmd krefst þess að fljótlega verði hafist handa um útfærslur. Því er æskilegt að fá styrk fyrir starfsmann til að sinna málum frá og með haustinu 2016. Lagt er til að þetta verkefni verði unnið í samstarfi við fræðslumiðstöð Vestfjarða og framhaldsskólana.

Með þessu fyrirkomulagi gefst þeim sem eru búsettir í dreifbýli kostur á að sækja nám án þess að flytjast búferlum en framboð á fjar- og dreifnámi hefur vaxið síðustu ár, enda verið mikil eftirspurn eftir slíku námi. Nemendur eru úr flestum aldurs- og samfélagshópum. Aukið framboð hefur veitt fleirum tækifæri til náms og þannig er stuðlað að jöfnun aðstöðu til náms óháð búsetu. Kostnaðaráætlun vegna þessa verkefnis er metið á 7,2 milljónir í tvö ár og ábyrgð á og framkvæmd með verkefninu hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Mig langar því að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort hann hafi hafið undirbúning að stofnun framhaldsskóladeildar á Reykhólum í samvinnu við framhaldsskóladeildina í Strandabyggð og byggt þann undirbúning á tillögu í skýrslu Vestfjarðanefndarinnar.