146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

húsnæðisbætur.

226. mál
[17:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Staða fólks á leigumarkaði er mjög erfið og um það hefur verið rætt bæði á Alþingi og úti í samfélaginu í alls konar samhengi. Það á ekki hvað síst við þegar hafðir eru í huga þeir sem hafa lágar ráðstöfunartekjur. Húsnæðisstuðningur hins opinbera og hvernig honum er háttað skiptir þar veigamiklu máli. Því miður eru ófá dæmi um að fólk sem hefur lágar ráðstöfunartekjur greiði allt að 60% eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í leigu.

Eins og málum er nú háttað byrja húsnæðisbætur ríkisins að skerðast við rúmar 258 þús. kr. tekjur. Ég vil því annars vegar spyrja hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra hvenær hann hyggist í samræmi við 30. gr. laga um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, gera breytingar á fjárhæðum frítekjumarka miðað við árstekjur í 17. gr. laganna þannig að t.d. öryrkjar sem búa einir og hafa einungis greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins til framfærslu njóti fullra húsnæðisbóta. Mig langar að taka fram að þótt ég taki öryrkja sem dæmi er rétt að benda á það að frá 1. maí næstkomandi munu lágmarkstekjur eftir sex mánaða störf á vinnumarkaði hækka þannig að þá fyrst verða þær 280 þús. kr. Þó svo að hér sé sérstaklega spurt um öryrkjana gildir þetta því um fleiri hópa sem hafa mjög lágar ráðstöfunartekjur, húsnæðisbæturnar skipta þá máli.

Hins vegar vil ég líka spyrja, vegna þess að með breytingum sem gerðar voru á húsnæðisstuðningi teljast bætur almannatrygginga og þar með talið uppbætur á lífeyri til tekna, hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir breytingu á lögunum til að koma í veg fyrir að uppbætur á lífeyri, svo sem uppbætur vegna lyfjakostnaðar og desemberuppbót, sérstaklega eru uppbætur vegna lyfjakaupa ekki (Forseti hringir.) hugsaðar inn í það að reka húsnæði heldur til þess að fólk geti keypt sér lyf, skerði húsnæðisbæturnar.