146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

húsnæðisbætur.

226. mál
[17:35]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Ég vil enn og aftur þakka ágæta umræðu. Í afskaplega stuttu svari þætti mér rétt að hnykkja aðeins á því að þegar kemur að umræðu um velferðarmálin, þegar kemur að umræðu um fátækt hér á landi og tækifæri fólks þar að lútandi þá finnst mér afskaplega mikilvægt að hafa í huga að þrátt fyrir að við eigum alltaf að vera að vinna að því að gera betur megum við líka þakka fyrir það að staða okkar er á alla mælikvarða gríðarlega sterk. Það er jákvætt. Við upplifum mjög sterka góða efnahagslega stöðu sem þjóð og hvar sem okkur ber niður þegar við skoðum þá þætti sjáum við að kaupmáttur hefur aldrei verið hærri, launajöfnuður hefur aldrei verið meiri þegar horft er á svonefnda Gini-stuðla og þegar við berum okkur saman við önnur ríki. Kaupmáttur eldri borgara hefur heldur aldrei verið hærri, þökk sé m.a. ört batnandi eða sterkara lífeyriskerfi og samspili þess við almannatryggingarnar. Útgjöld til almannatrygginga voru aukin um að ég held eina 23 milljarða á milli ára 2016–2017. Það er alveg ljóst að við erum þar af leiðandi að bæta talsvert í til þess að styðja við tekjulága einstaklinga. Þar eigum við alltaf að hafa að metnað til að gera enn betur, lagfæra kerfið þar sem brotalamir kunna að vera o.s.frv.

Það má líka hafa í huga að það þarf ekki endilega að rífa niður með neikvæðri umræðu allt það sem vel hefur verið gert í gegnum árin, sem mér finnst alls ekki hafa verið gert í ræðum hv. þingmanna en stundum þykir mér talað eins og, og m.a. umræður helgarinnar báru merki um það, hér sé allt ómögulegt. Þó svo að vissulega sé það alltaf svo, því miður, að fólk glími við fátækt þá vitum við að sá hópur er fámennari nú en nokkru sinni fyrr. (Forseti hringir.) Allar vísbendingar benda til þess að stór hluti hans glími við fátækt (Forseti hringir.) tímabundið og að tækifæri til aukinna tekna séu vissulega fyrir hendi. Þetta er afar mikilvægt. En auðvitað eigum við stöðugt að huga að því hvernig við getum bætt úr því.