146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[14:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Frú forseti. Hér er mælt fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og verður stiklað á stóru í nefndarálitinu.

Nefndin fékk á fund sinn fulltrúa frá bæði forsætisráðuneyti og innanríkisráðuneytinu. Það var óskað eftir umsögnum frá 30 aðilum og bárust nefndinni alls sex erindi vegna málsins.

Með þingsályktunartillögunni er leitað eftir stuðningi Alþingis við fyrirhugaða breytingu á heiti og fjölda ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Felur hún í sér að í stað innanríkisráðuneytis komi annars vegar dómsmálaráðuneyti og hins vegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Á fundum nefndarinnar kom fram að með skiptingunni mætti tryggja markvissari forystu í málaflokkum hvors ráðuneytis um sig, að miklar breytingar hefðu orðið frá því að ráðuneytin voru sameinuð á sínum tíma og að ný og brýn verkefni hefðu kallað á sérstaka forgangsröðun og athygli ráðherra. Einnig kom fram að breytingin myndi stuðla að aukinni sérþekkingu á þeim málefnasviðum sem um ræðir og skarpari stefnumótun sem leiddi til þess að sérfræðieiningar yrðu öflugri. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að byggja upp sérþekkingu á málefnasviðum og telur það grundvallarforsendu þess að efla ráðuneytin.

Nefndin fjallaði almennt um skiptingu málefnasviðs milli ráðuneyta og þá sérstaklega varðandi stofnanir sem undir þau heyra. Var nefnt að hlutverk stofnana hefur breyst og þróast mjög mikið á síðustu árum og því væri nauðsynlegt að huga vel að því undir hvaða ráðuneyti stofnanir ættu að heyra. Meiri hlutinn leggur einnig áherslu á mikilvægi þess að breytingarnar verði unnar í góðu samstarfi við forystumenn stofnana og þá ekki síður ef þær eru færðar milli ráðuneyta.

Nefndin ræddi nokkuð um sjálfstæðar úrskurðarnefndir sem starfa í miklum mæli utan ráðuneytanna. Meiri hlutinn telur æskilegt að draga úr því fyrirkomulagi og leggur áherslu á að hugað verði sérstaklega að því að færa þessi verkefni í auknum mæli inn til ráðuneytanna að nýju.

Nefndin ræddi talsvert um kostnað og breytingar í starfsmannahaldi. Fyrir nefndina voru lagðar hugmyndir þar sem gert var ráð fyrir verulegum kostnaði við uppskiptinguna sem nefndin gerði athugasemdir við. Meiri hlutinn telur að auk eðlilegs upphafskostnaðar muni breytingarnar fela í sér kostnað vegna ráðningar ráðuneytisstjóra og ritara hans.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að með samþykkt þingsályktunartillögunnar er ekki verið að samþykkja frekari útgjaldaaukningu vegna uppskiptingarinnar.

Frú forseti. Að lokum er rétt að þakka hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir gott samstarf um málið þótt ekki næðist full samstaða í nefndinni. Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir álitið skrifa hv. þingmenn Brynjar Níelsson, Jón Steindór Valdimarsson, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson og Hildur Sverrisdóttir, sem reyndar var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.