146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[15:41]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég fór aðeins yfir þetta áðan í ræðu minni. Einmitt þessi kafli, 3. kafli tillögunnar sem fjallar um meginmarkmiðið að baki breytingunum — ég hefði ekki viljað fá slíka sendingu frá forsætisráðherra landsins, verandi fyrrverandi ráðherra í innanríkisráðuneytinu, því að þarna er beinlínis sagt að meginástæða breytinganna sé að þeir ráðherrar sem þarna hafa gegnt störfum hafi ekki getað tryggt markvissa forystu í þessum málaflokkum. Meginmarkmiðið er að tryggja markvissa forystu og þar af leiðir að hún var ekki fyrir hendi. Ef það hefði verið markviss forysta í ráðuneytinu þá væri þessi meginástæða fokin út í veður og vind.

Sömuleiðis segir í röksemdafærslu forsætisráðherra að það ætti að nást, þetta er nú enn einn textinn í tillögunni sem er engin fullvissa í, heldur að þetta muni kannski nást, betri yfirsýn yfir þá málaflokka sem undir hlutaðeigandi ráðherra og ráðuneyti heyra.

Með öðrum orðum, það eru tvær meginástæður fyrir þessum breytingum að mati hæstv. forsætisráðherra. Annars vegar að þeir sem þar hafa verið fyrir hafi ekki tryggt nægilega markvissa forystu í þeim málaflokkum sem undir þá heyrðu, og í öðru lagi að þeir hafi ekki haft yfirsýn yfir þá málaflokka sem þeir áttu að hafa með í ráðuneytinu.

Þetta hlýtur að vera köld gusa fyrir þá sem þarna voru. En ég vitna þá aftur í orð þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Birgis Ármannssonar, sem sagði það vorið 2012 þegar verið var að sameina ráðuneytin að hann óttaðist að það fyndist ekki það ofurmenni sem þyrfti til að sinna slíkum verkefnum sem sameining ráðuneytanna fól í sér.