146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni. Mér þykir miður ef hann skildi orð mín þannig að ég væri að afneita því sem hefði staðið í rannsóknarskýrslunni. Alls ekki. Ég held að það hafi verið mjög þarft og mikið verk. Það eina sem ég var að benda á er að ég held að hún sé eins og öll önnur mannanna verk, það er ekki meitlað í stein sem hinn endanlegi sannleikur. Það var nú bara það sem ég vildi sagt hafa, ekki að hún væri ekki vönduð eða segði ekki margt gott. Það þýðir ekki að allt sem þar kom fram sé hinn endanlegi sannleikur um alla framtíð. Það var einungis það.

Varðandi kostnaðarmatið þá liggur það auðvitað fyrir í kostnaðarmatinu sem kom frá innanríkisráðuneytinu sem var sundurliðað, hvað ráðuneytisstjóri kostar, hvað ritari hans kostar. Um það bil 35 eða 36 milljónir ef ég man rétt, fyrir utan 10 milljónir í einskiptiskostnað sem kom þar fram. Þetta liggur algjörlega fyrir og ég held að það sé engum vafa undirorpið.